143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Virðulegi forseti. Það er félagslega taugin í mér sem ætlar að tala. Eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson kom hér inn á er sú taug mjög römm í okkur framsóknarmönnum. Ég ætla að nota tækifærið og vekja athygli á starfsemi Ljóssins sem er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem fengið hefur krabbamein og ekki síður aðstandendur þeirra. Þar fær fólk sérhæfða endurhæfingu og stuðning þar sem fagfólk aðstoðar við að byggja upp líkamlegt og andlegt þrek, auk þess sem það fær stuðning við að setja sér markmið sem auka daglega virkni og hafa þannig áhrif á lífsgæði almennt.

Eins og við vitum greinast sífellt fleiri með þennan illvíga sjúkdóm og þörfin fyrir slíkt heimili sem tekur á móti fólki hefur orðið æ mikilvægari. Til að mynda voru í árslok 2012 11.300 einstaklingar á lífi sem greinst höfðu með krabbamein. Rannsóknir hafa sýnt að fjölbreytt endurhæfing og stuðningur skiptir sköpum fyrir bata, m.a. í formi hreyfingar og andlegs stuðnings sem spornar gegn kvíða og streitu. Þannig er málið vaxið að opinber stuðningur við Ljósið kemur nú frá velferðarráðuneytinu og er 2,2 millj. kr. á mánuði, sem samsvarar 26,4 millj. kr. á ári. Það framlag dekkar aðeins um 30% af heildarrekstrarkostnaði og tíma og orku stjórnenda og starfsmanna væri betur varið í umönnun en að afla fjár úti á hinum frjálsa markaði.

Það er því von mín að við getum (Forseti hringir.) stutt þennan einstaka stað betur og ég beini ósk minni þar um til tveggja (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra, heilbrigðis- og velferðarmála.