143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla við þetta tækifæri sem okkur þingmönnum gefst að vekja athygli á ýmsum frjálsum félagasamtökum sem hafa látið gott af sér leiða. Það hefur komið fram að Landspítalinn byggir tækjakaup sín að nokkru leyti á framlögum frjálsra félagasamtaka og einstaklinga. Ég veit til þess að frjáls félagasamtök kvenna, Hringurinn, hafa stutt vel við barnaspítala Landspítalans sem er reyndar kallaður Barnaspítali Hringsins. Ég veit til þess að einstaklingar úti á landi, t.d. í minni gömlu heimabyggð, Vestmannaeyjum, tóku sig til og endurnýjuðu rúm á spítalanum. Ég veit til þess að austur á Norðfirði, hvaðan ég er ættaður, hefur útgerðarfyrirtæki hjálpað til.

Ég lýsi hér eftir því að íslenskir karlmenn taki sig nú á. Ég er búinn að benda á framlag kvenna. Fram kom á fundi sem ég var staddur á að til er tæki, þjarkur, til skurðaðgerða við blöðruhálskirtilsstækkun sem kostar 150 milljónir. Það eykur líkur á bata úr 30% í 70%, kemur í veg fyrir sírennsli og getuleysi sem er hvort tveggja alvarlegt. Ég lýsi eftir íslenskum karlmanni eða karlmönnum til að leysa úr þessu vandamáli. Þetta eru 150 milljónir, þetta er eins og gott hús. Ég trúi ekki öðru en að íslenskir karlmenn geti látið eitthvað af hendi rakna fyrir þessu tæki.

Virðulegur forseti. Ég hef lokið máli mínu.