143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Fyrst af öllu út af ræðu hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur áðan um skýrsluna um sæstreng sem var flutt í þinginu í gær vil ég segja það sem formaður atvinnuveganefndar að ég lít alls ekki svo á að sú skýrsla sé send til svæfingar í atvinnuveganefnd. Ég mun beita mér fyrir því að atvinnuveganefnd ljúki vinnu við þessa skýrslu og skila henni eins og sómasamlega ber til þingsins aftur til nánari umfjöllunar og ákvörðunar um hvað við gerum í framhaldinu. Ég vil bara taka af allan vafa í þeim málum.

Það sem gerðist vestur í Kolgrafafirði í fyrra er mikið áhyggjuefni. Gríðarleg verðmæti sóuðust en það eru ekki bara verðmæti sem sóast heldur er þarna um að ræða það mikið magn af síld sem drepst úr stofni sem við erum með takmarkaðar veiðar í að þetta getur með sama áframhaldi haft veruleg áhrif á viðgang stofnsins. Það er kannski til lengri tíma litið miklu meira áhyggjuefni. Þess vegna er brýnt að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig, það er algerlega nauðsynlegt, ekki endilega með því að veiða þetta á staðnum. Það er þó betra að gera það, ég tek undir það, en að láta þetta drepast þarna og verða að engum verðmætum. Fyrst og fremst þurfum við þó að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig.

Ég er fullvissaður um að sú vinna sé í gangi hjá sjávarútvegsráðuneytinu og að í undirstofnunum ráðuneytisins sé að finna öll tiltæk ráð til að bregðast við vandanum. Margar góðar hugmyndir hafa komið fram. Einhverjar þeirra snúa að því að reyna að veiða þessa síld áður en hún drepst. Það er vissulega neyðarúrræði ef það er eina úrræðið, að reyna að gera þetta að einhverjum verðmætum áður en þetta sturtast niður í hafið, ef maður getur orðað það þannig. Það er unnið að þessu af miklum þunga og menn gera sér vel grein fyrir þeim alvarleika sem hér býr að baki.