143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

fjárfestingaráætlun.

[17:22]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Sá þingmaður sem hér stendur er kannski tiltölulegur nýgræðingur í pólitík og ekki alveg búinn að tileinka sér pólitík eins og hún er spiluð og keppnisíþróttina sem í henni virðist felast. Mér finnst umræða um fjárfestingaráætlun og þau atriði sem bjuggu í henni alltaf detta inn í svona keppni milli liða, við eða þið. Var fyrri ríkisstjórn frábær eða ömurleg, er sú nýja frábær eða ömurleg? Við komumst alltaf fram hjá því að ræða hugmyndirnar og atriðin sem eru í fjárfestingaráætlun, því fjárfestingaráætlunin var vissulega metnaðarfull, ekki bara út frá því að þarna átti að blása til sóknar og byggja undir sprota, bæði nýsköpun, í skapandi greinum, tækniþróun o.s.frv. En umræðan fer einhvern veginn alltaf inn í það hvernig þið ætluðuð að fjármagna þetta eða af hverju þið eruð að slá þetta af. Mér finnst það óþægilegt. Mér finnst eins og við séum að tala okkur fram hjá þeirri framtíðarsýn sem lá á bak við fjárfestingaráætlunina.

Í fjárfestingaráætluninni voru atriði byggð á mikilli þverfaglegri og þverpólitískri vinnu eins og t.d. sóknaráætlanir landshluta. Mér finnst rangt að við … [Sími hringir hjá ræðumanni.] — Ég bið forseta að afsaka.

Mér finnst rangt að við í þingheimi snúum þessu öllu upp í umræður um liðin. Í umræðu fyrr í vikunni þegar við ætluðum að ræða málefni rannsóknarsjóða duttum við í staðinn í það að rífast um hvernig fjárfestingaráætlunin væri fjármögnuð. (Forseti hringir.) Mér þykir þetta miður.