143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

37. mál
[18:17]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér kannski fyrst og fremst hljóðs til að taka undir sjónarmið sem fram komu í máli hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur um að við eigum ekki að skoða þetta viðfangsefni í svart/hvítum litum. Þetta er ekki spurning um annaðhvort/eða.

Ég tel að Keflavíkurflugvöllur og aðstaðan sem þar er eigi framtíð fyrir sér sem miðstöð í björgunarmálum og að hluta til fyrir ýmsa kjarnastarfsemi á vegum Landhelgisgæslunnar. Ég er sannfærður um það. Það kom einnig fram í máli hv. þm. Páls Jóhanns Pálssonar hér áðan að með auknum siglingum um norðurslóð væru menn meðal annars að horfa til Keflavíkurflugvallar, að sönnu einnig til Noregs og fleiri staða. Ég held að horft verði til allra þessara staða vegna þess að það verður enginn einn staður sem mun sinna björgunarstarfi heldur er þetta spurning um keðju, björgunarkeðju, á þessum slóðum. Þar mun Keflavíkurflugvöllur gegna mjög mikilvægu hlutverki.

Öðru hvoru hafa komið upp þær hugmyndir að rífa Landhelgisgæsluna upp með rótum í einu vetfangi og flytja hana á Reykjanesið. Menn hafa vísað hér í skýrslu sem sett var fram árið 2011 sem viðbrögð við slíkum hugmyndum. Þá komu fram hugmyndir innan ríkisstjórnar og innan stjórnarmeirihlutans, og voru studdar af mörgum hér á Alþingi, að við ættum í einu vetfangi að flytja Landhelgisgæsluna. Þá var kannað hvað það mundi kosta við þær aðstæður. Það var engin vanvirðing við Suðurnesin, eins og hér kom fram í umræðunni, heldur var horft til kjarasamninga og kostnaðar sem mætti ætla að félli á ríkissjóð við slíka flutninga. Það er hins vegar ekki viðvarandi ástand vegna þess að með breyttu búsetufyrirkomulagi starfsmanna mundi draga úr þeim kostnaði. Könnunin miðaði við aðstæður eins og þær voru og að ráðist yrði í þessa flutninga í einu vetfangi. Það var hugsunin.

Þar kem ég aftur að röksemdafærslu hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur um að við eigum að hætta að hugsa um stofnanir heildstætt, annaðhvort/eða, svart/hvítt. Landhelgisgæslan á að mínum dómi að sjá um sjúkraflug, ég held að framtíðin verði sú. Miðstöð sjúkraflugs á Íslandi á að mínum dómi að vera Egilsstaðir eða Akureyri, þaðan erum við að flytja sjúklingana til sjúkrahúsanna hér á þessu svæði. Þá á mikilvæg kjarnastarfsemi Landhelgisgæslunnar að vera staðsett á norðausturhorninu, að hluta til hugsanlega á Keflavíkurflugvelli vegna þess að þar er líka aðstaða.

Síðan er spurningin með Skógarhlíðina. Talað var um það hér áðan að ef til vill væri það kostur að flytja hana eins og hún leggur sig suður á Keflavíkurflugvöll. En hvað segja aðrir aðilar sem að henni koma um það? Að mínum dómi er þetta ekki svona einfalt mál. Mér finnst menn vera að eyðileggja góða hugmynd með því að ætla að flytja stofnanir svona í einu lagi, það á að skoða þetta rólega. Hér er talað um að Alþingi álykti að fela innanríkisráðherra að hefja undirbúninginn. Eigum við ekki fyrst að skilgreina þetta nánar? Þá má vel spyrja: Ætla menn að gefa sér tíma til eilífðarnóns að ráðast í það? Nei, en okkur liggur ekki svona á, okkur liggur ekki svona óskaplega mikið á. Það sem skiptir máli er að gera þetta á vandaðan og yfirvegaðan hátt og spyrja: Hver er framtíðin? Ég held að hún sé mjög björt fyrir Suðurnesin að þessu leyti. Þó það taki einhver missiri eða einhver ár að ráðast í þessar breytingar eigum við að gera þetta hægt og við eigum að gera þetta á miklu yfirvegaðri hátt en hér kemur fram.

Hér var talað um það sem sérstaklega sannfærandi rök fyrir framgangi málsins að allir þingmenn á svæðinu væru þessu fylgjandi. Mér finnst það nú ekkert sérstaklega sannfærandi. Ég hefði þá viljað sjá þingmenn frá öðrum kjördæmum taka undir það. (Gripið fram í.) — Gott og vel, það er ágætt. Ég er alls ekkert að slá þetta út af borðinu. Ég er að taka undir það að ég telji að í framtíðinni eigi tilteknir þættir að vera á Suðurnesjum og að við eigum að nýta þá aðstöðu sem þar er. En ég vil ekkert gefa mér að allir starfsþættir Landhelgisgæslunnar verði þar. Ég vil líka spyrja: Hvað finnst starfsmönnum Landhelgisgæslunnar um þetta? Hver eru þeirra sjónarmið? Er ekki rétt að hlusta á rökin þaðan líka? Mér finnst það. Í stað þess að fara fram með þessum hætti.

Ég kom hingað upp fyrst og fremst til að taka undir þau sjónarmið hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur að það sé rangt að líta á þetta sem svart/hvítt viðfangsefni, annaðhvort/eða. Og ég kom líka upp til að mótmæla því að úttekt sem gerð var á vegum innanríkisráðuneytisins, og að mínu frumkvæði árið 2011, hafi verið einhver móðgun við Suðurnesin, því fer fjarri. Verið var að skoða afleiðingar af því að flytja Landhelgisgæsluna með hraði í einu vetfangi og að sjálfsögðu verður að skoða niðurstöðurnar í því samhengi.

En ég hvet til þess að menn fari varlega í sakirnar, að menn gefi sér tíma og hlusti á sjónarmiðin innan Landhelgisgæslunnar. Það er margt að breytast í umhverfi okkar sem ég er sannfærður um að komi til með að vinna með Suðurnesjunum hvað þetta snertir.