143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

upplýsingar um friðlýsingu Norðlingaölduveitu.

[10:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hefði auðvitað viljað beina fyrirspurn til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra en hann hefur því miður ekki verið við hér í óundirbúnum fyrirspurnatíma á fjórðu viku. Mér finnst ástæða til að gera athugasemd við það við virðulegan forseta og að virðulegur forseti íhugi það að svo virðist vera sem hæstv. umhverfisráðherra veiti aðrar upplýsingar á Alþingi Íslendinga en hann veitir í fjölmiðlum. Ég vísa þá til þess svars sem hér var lagt fram skýrt og greinilega við fyrirspurn frá mér um stöðu friðlýsinga á verndarsvæðum í rammaáætlun þar sem klárlega kemur fram, svo ég vitni í svarið, með leyfi forseta, að friðlýsing Norðlingaöldu „verði hluti af þessu stóra friðlýsta svæði“, þ.e. Þjórsárverum og miðhálendinu.

Það næsta sem gerist er að hæstv. ráðherra segir allt annað við fjölmiðla og segir að Norðlingaölduveita sé enn inni í myndinni. Ég vil því gera athugasemd við þessi störf á þinginu, mér finnst óeðlilegt að aðrar upplýsingar séu veittar á Alþingi en við fjölmiðla.