143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

afnám gjaldeyrishafta.

[10:36]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil beina máli mínu til hæstv. fjármálaráðherra vegna þess að frá ríkisstjórninni hafa komið mjög misvísandi svör á undanförnum vikum um afnám hafta, hvaða reglur gildi í því efni og hverjar væntingar stjórnvalda séu. Ég reyndi að inna hæstv. forsætisráðherra eftir skýrum línum í því efni í síðasta fyrirspurnatíma en varð, verð ég að segja, því miður ekki mjög ágengt. Því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra frekar út í þetta mál. Hann hefur sjálfur sagt að ef hægt sé að stilla saman væntingar aðila, erlendra kröfuhafa og íslenskra stjórnvalda, ætti að vera hægt að lyfta höftum á sex til níu mánuðum. Hann hefur jafnframt sagt að Seðlabankinn sé sá aðili sem kröfuhafar eigi að beina máli sínu til. Hæstv. forsætisráðherra sagði hins vegar hér á mánudaginn að ekki væru fyrirhugaðar neinar samningaviðræður við erlenda kröfuhafa. Það var erfitt að skilja hann öðruvísi en svo að það væri ekki ætlun ríkisstjórnarinnar að eiga neitt samtal við kröfuhafana um þetta mál.

Ég vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hver er raunveruleg stefna ríkisstjórnarinnar í þessu efni? Með hvaða hætti eiga væntingar aðila að færa þá nær hverja öðrum ef ekki koma til einhverjar samræður? Hvernig sér hæstv. fjármálaráðherra þessa þróun fyrir sér? Hefur hann gefið Seðlabankanum umboð til að ræða við erlenda kröfuhafa? Með hvaða hætti verður þá tekið á hugmyndum erlendra kröfuhafa ef þær koma fram? Er það ekki þannig að samtal þurfi að eiga sér stað ef menn vilja að viðhorf tveggja aðila færist nær?