143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

útibú umboðsmanns skuldara á Akureyri.

[10:45]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur fyrir fyrirspurnina. Ég held að þessi ríkisstjórn hafi áhuga á að tryggja störf um allt land, ekki bara í einstökum landshlutum, og eigi það sameiginlegt með fyrri ríkisstjórn. Við stóðum hins vegar frammi fyrir því við gerð fjárlaganna að þurfa að ákveða hvar þyrfti að hagræða í rekstri. Það hefur legið fyrir í nokkurn tíma að fjölda umsókna sem bárust umboðsmanni skuldara hafði fækkað — sem er ánægjuefni, þ.e. að færri leita til umboðsmanns skuldara eftir greiðsluaðlögun.

Mér skilst að um 320 umsóknir hafi farið í gegnum útibú umboðsmanns skuldara á Akureyri. Í heimsókninni til Akureyrar nýlega þar sem ég fór meðal annars í útibú Vinnumálastofnunar kom fram að atvinnuástandið þar væri allt annað en hafði verið áður, væri raunar mjög gott á Norðurlandi og liti mjög vel út þegar horft væri til framtíðar. Umboðsmaður skuldara fór þá í nauðsynlegar hagræðingaraðgerðir á grundvelli þess að það væri minna umfang hjá stofnuninni. Störfum var fækkað á höfuðborgarsvæðinu þar sem höfuðstöðvarnar eru. Það var tekin ákvörðun um að loka útibúinu á Akureyri auk þess sem afgreiðslutíminn á Suðurnesjum var styttur. Ég tel að þessar ákvarðanir hafi verið unnar mjög vel. Þetta var ekki auðveld ákvörðun en það var farið mjög vel yfir þetta og má jafnvel segja að þar sem það hafi legið fyrir í starfsemi umboðsmanns skuldara að menn gerðu ekki ráð fyrir sama fjölda umsókna var stór hluti starfsmanna þar ráðinn með tímabundnum samningum. Mér skilst að það hafi gilt að hluta til um þá starfsmenn sem störfuðu á Akureyri.

Ég hef verið að huga að öðrum stofnunum sem eru með höfuðstöðvar á Akureyri, huga að því hvernig hægt sé að styrkja þær. Ég get kannski komið að því í mínu seinna svari.