143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

nauðungarsölur.

[10:57]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspurnina og áhugann sem þingmaðurinn sýnir málinu og hefur haldið því vakandi og lifandi hér í umræðunni sem er mikilvægt.

Varðandi fyrri vangaveltur þingmannsins um umræddan dóm þá hef ég áður sagt það úr þessum ræðustól að málið hefur verið skoðað í innanríkisráðuneytinu. Dómurinn er ekki talinn eiga við um íslenska löggjöf. En það þýðir ekki að við getum ekki rýnt málið með öðrum hætti en sú skoðun hefur farið fram í innanríkisráðuneytinu og um það hef ég upplýst þingheim áður — sá dómur sem ítrekað hefur verið vitnað til er ekki talinn eiga við um íslenska löggjöf. Við höfum ekki tekið neina ákvörðun um það eða stefnt að því að hefja dómsmál þar sem talið er að dómurinn eigi við um íslenska löggjöf. Svo er önnur spurning, sem við getum sannarlega farið yfir á þessum vettvangi, hvort ástæða sé til að ganga lengra en að fara eftir þeirri niðurstöðu sem til þess bærir aðilar á vettvangi innanríkisráðuneytisins hafa komist að.

Varðandi valdheimildir innanríkisráðherra er þetta varðar hef ég einnig komið ítrekað inn á það úr þessum ræðustóli að ráðherra getur ekki einn og sér stöðvað þá löggjöf sem er í gangi. Það þarf að gerast í gegnum löggjafann. Sé það vilji löggjafans að fresta nauðungarsölum verður það að gerast í gengum löggjafann og það held ég að allir þingmenn þekki enda hefur það einu sinni eða tvisvar verið gert í þinginu.

Ég hef einnig ítrekað sagt, virðulegur forseti, að málið er til skoðunar innan ríkisstjórnarinnar og verður samhliða tekin um það ákvörðun þegar kynntar verða niðurstöðurnar er lúta að lausnum á skuldamálum heimilanna. Þetta hefur komið fram hér aftur og aftur og aftur og ég get endurtekið að það hefur verið til skoðunar á vettvangi innanríkisráðuneytisins í góðu samstarfi við félags- og húsnæðismálaráðherra hvort við getum samhliða þeim aðgerðum skoðað þá kosti að fresta nauðungarsölum, en það þarf að gerast samhliða. Ástæðan fyrir því — ég hef ekki tíma nú en ég get farið yfir það í seinna svari mínu hér — er (Forseti hringir.) sú að réttarfarsnefndin telur að farsælla sé að gera það með þeim hætti og það standist löggjöf okkar betur.