143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

nauðungarsölur.

[11:01]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi svo sem svarað sinni eigin spurningu, málið kemur til löggjafans og tekin verður ákvörðun á vettvangi Alþingis eins og ég hef ítrekað sagt. Þannig ber að gera það en ekki samkvæmt tilskipunum frá einstaka ráðherrum.

Ég vil aðeins vegna umræðna um nauðungarsölur benda hv. þingmanni á að það sem af er árinu hafa 942 eignir verið seldar nauðungarsölu en til samanburðar voru þær á þeim tíma 1174 árið 2012 og 1219 árið 2011. Farsællega hefur þessu fækkað og tölurnar núna eru sambærilegar við stöðuna sem var hér uppi árið 2003, bara til að menn átti sig á samhenginu. Við hljótum að fagna því að þessum aðgerðum hefur fækkað og það hlýtur að benda til ákveðinnar bættrar stöðu.

Að auki bendi ég líka á að það er ekki rétt sem kemur ítrekað fram að þegar nauðungarsala fer fram þurfi fjölskyldur strax að fara út úr húsnæði sínu. Lögum var breytt á síðasta kjörtímabili þannig að fyrri eigendur geta setið í eigninni í allt að 12 mánuði gegn greiðslu hæfilegrar húsaleigu. Það er aðgerð sem farið var í á síðasta kjörtímabili. Það er því ekki þannig að um leið og nauðungarsala hefur farið fram þurfi fjölskyldur að víkja úr eigninni.