143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi, sbr. ályktun Alþingis nr. 1/142, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[11:24]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra skýrslu hans en verð nú að segja að við fengum að kynnast því hér á sumarþingi að ætlunin væri ekki að efna stærstu kosningaloforð Íslandssögunnar heldur skipa nefndir. Af þessari ræðu má ráða að það eru ekki bara nefndir og engar efndir heldur enn þá fleiri nefndir. Það er það sem við heyrum núna. (Gripið fram í: Er það?)

Starfshóparnir eru búnir að stofna fleiri undirstarfshópa og við sitjum hér undir skýrslu hæstv. ráðherra og fáum ekki að vita fyrir fram hvert efni hennar er og eigum ekki neitt samtal við ríkisstjórnina um þetta mikilvæga verkefni. Það eru tímamót, satt að segja, í samskiptum stjórnar og stjórnarandstöðu þegar þetta mikilvæga verkefni, skuldamál heimilanna, er annars vegar. Allt síðasta kjörtímabil var hvert einasta skref í skuldamálum heimilanna undirbúið í þverpólitískri samvinnu með aðkomu allra flokka.(Gripið fram í.) Við báðum um það á sumarþingi að fá aðkomu að þessu verkefni í anda þess sem hæstv. forsætisráðherra hefur nú stundum nefnt, að það þurfi að breyta um vinnubrögð í íslenskum stjórnmálum, en því var hafnað.

Það er auðvitað mjög sérkennilegt að sitja síðan í þéttpökkuðum þingsal — því að allir vilja náttúrlega fá að heyra erkibiskups boðskap og vita hvernig efndunum verði háttað — sitja hér óupplýst og bíða eftir því milli vonar og ótta hvort eitthvað komi frá hæstv. forsætisráðherra.

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra hefur ítrekað talað um að fram undan sé heimsmet í vinnu við að lækka skuldir heimila. Hann hefur ekki þreyst á því að kynda undir væntingum í þeim efnum. Það er rétt að minna hann á að á síðasta kjörtímabili, þó að við séum öll sammála um að meira þurfi að gera fyrir skuldug heimili þótt okkur greini kannski aðeins á um hvernig eigi að gera það, lækkuðu skuldir heimila um 200 milljarða og 100 milljörðum var varið í vaxta- og barnabætur. Það er gildandi heimsmet í úrlausn fyrir skuldug heimili sett af síðustu ríkisstjórn og viðurkennt meira að segja í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þar sem fjallað er um skuldir heimila sem algjört tímamótaverkefni. Það er vert að minna hæstv. forsætisráðherra á að hann þarf þá að toppa það ef hann ætlar að setja nýtt heimsmet.

Það er mikilvægt verkefni að finna farsæla úrlausn á skuldavanda heimila og það er mikilvægt að lækka skuldastöðuna. Að því hefur verið unnið árum saman og við höfum oft rekist á veggi í því efni vegna þess að stjórnarskráin takmarkar svigrúm okkar og vegna þess að kröfurétturinn er vel varinn af dómstólum. En þess vegna er lykilatriðið að marka almennar, skýrar leikreglur sem eru sanngjarnar og að við lækkun skulda sé farið eftir leikreglum sem allir skilja og við flytjum ekki byrðar af einum þjóðfélagshópi yfir á annan eða með öðrum ósanngjörnum hætti stuðlum að nýjum eignatilfærslum sem geta af sér ný vonbrigði og ný sárindi.

Þess vegna voru aðgerðir síðustu ríkisstjórnar allar byggðar á því að skapa skýrar, almennar leikreglur. Það sem skortir sáran í öllum fyrirheitum um efndir af hálfu núverandi ríkisstjórnar er eitthvað sem líkist almennum leikreglum og að við sjáum einhverjar útfærðar leiðir sem þola dagsljósið. Fyrirheitin voru gefin. Hæstv. forsætisráðherra horfði í augu kjósenda dagana fyrir kosningar og sagði: Þetta er hægt. Hann sagði 22. apríl: Skuldirnar lækka strax, áhrifin á efnahagslífið koma í ljós á næstu missirum. En skuldirnar lækka strax.

Það eru þessi fyrirheit sem hafa verið gefin sem hafa ekki enn verið efnd. Af ræðu forsætisráðherra má ráða að ekki sé mjög skýrt hvernig þau verði efnd ef þá nokkru sinni. Við heyrðum að nú sé horft á alls konar sjóði, einhvers konar sjóð til að taka yfir yfirveðsett húsnæði, einhvers konar umbreytingarsjóð til þess að láta ríkið axla ábyrgðina og áhættuna af skuldaleiðréttingunni. Það var nákvæmlega ekki það sem hæstv. forsætisráðherra lofaði. Hann lofaði því að leiðrétting yrði framkvæmd hratt og örugglega og kostnaður af henni yrði borinn af erlendum kröfuhöfum og hann talaði um svigrúm upp á 200–300 milljarða í því efni. Við bíðum enn þá eftir að sjá hvað felst raunverulega í þeim fyrirheitum og hvernig ríkisstjórnin hyggst efna þau.

Á meðan er ekki unnið í úrlausnum sem hægt væri að vinna í. Það er mörgu ólokið í úrvinnslu skuldamála heimilanna og það situr allt fast vegna þess að ríkisstjórnin kemur sér ekki að neinu verki. Hún stofnar nefndir en hún vinnur ekki áfram nein verkefni sem gætu horft til heilla. Við vitum það öll í þessum sal að ágallar voru á framkvæmd 110%-leiðarinnar sem ollu því að tekið var með mismunandi hætti á fólki í sambærilegri stöðu, eftir því við hvaða lánastofnun það skipti. Íbúðalánasjóður hafði ekki svigrúm til þess að mæta fólki með sama hætti og önnur fjármálafyrirtæki. Ekkert hefur gerst í því að reyna að breyta þessu. Það hlýtur að vera mikilvægt að auka svigrúm Íbúðalánasjóðs til að jafnræði sé tryggt, óháð öllum forsendubrestsleiðréttingum, það hlýtur að vera mikilvægt innlegg til að vinna úr þeirri erfiðu stöðu sem víða er uppi.

Með sama hætti er fullt af fólki í miklum vanda vegna lánsveðs. Foreldrar lánuðu veð í eign sinni og þetta fólk sem skuldar meira í húsunum sínum en nemur virði húseignanna fær ekki notið úrræða sem boðið hefur verið upp á eins og 110%-leiðarinnar vegna þess að veðið sem er hjá foreldrunum er ekki talið með til skulda þeirra. Við vorum búin að vinna lausn á því í lok síðasta kjörtímabils. Ný ríkisstjórn hefur heykst á að framfylgja henni. Hún segir að hún sé ekki nógu góð en kemur ekki með neina aðra lausn. Í þessu kristallast vandinn sem við er að etja hjá ríkisstjórninni. Hún hefur gefið gríðarleg fyrirheit. Hún hefur lofað tafarlausri lækkun skulda. Forsætisráðherra lofaði tafarlausri lækkun skulda þó að það tæki tíma fyrir áhrifin af skuldalækkuninni að koma fram í efnahagslífinu. Lofað var skuldalækkun upp á hundruð milljarða.

Enn bíðum við og það eina sem eftir stendur er að búið er að stofna fleiri starfshópa til að skoða fleiri hluti. En hin raunverulegu verkefni sem hægt væri að leysa úr til að létta á stöðunni, mæta þörfum fólks — það er ekkert gert í þeim. Hér sjáum við einfaldlega að áherslan er á að lifa í draumheimi en ekki í raunheimi.

Það er margt eftir ógert, sagði ég í upphafi, í skuldamálum heimilanna. Við vitum öll að sá hópur sem keypti á versta tíma á árunum fyrir hrun liggur enn þá óbættur hjá garði. Við í Samfylkingunni í aðdraganda kosninga höfðum útfærðar hugmyndir, sem við kynntum, um það hvernig væri hægt að mæta þeim hópi. Það mun auðvitað kosta ýmislegt en við töldum okkur hafa lausnir sem hægt væri að útfæra í því efni og hægt væri að láta virka og ég er sannfærður um að svo sé.

Þar er hópur sem augljóst er að hefur farið verr út úr aðstæðum en aðrir vegna þess að margir hinna sem hafa mátt þola hækkun lána hafa fengið að njóta á móti hækkunar á eignaverði. En ekki þessi hópur.

Virðulegi forseti. Við stöndum nú í þeim sporum að við erum litlu nær um það hvað ríkisstjórnin hyggst fyrir í skuldamálum heimilanna. Við bíðum enn eftir efndum á metloforðinu mikla og við vitum ekki hvort það er raunsætt að búast við að hér verði kynntar aðgerðir fyrir áramót. Hæstv. forsætisráðherra nefndi það í sumar að efndir í sumar hefðu breyst í efndir í nóvember. Hann flytur okkur nú í nóvemberbyrjun skýrslu og segir að tillögur komi frá nefndum síðar í mánuðinum. Hann færist því sífellt fjær sá dagur að eitthvað handfast verði til umfjöllunar á Alþingi Íslendinga. Satt að segja bendir fátt til þess eftir ræðu hæstv. forsætisráðherra áðan að nokkuð verði í hendi til umfjöllunar á Alþingi Íslendinga um skuldamál heimilanna hérna megin við áramót.

Hvort eitthvað kemur fyrir vorið fer að verða góð spurning en kannski hæstv. forsætisráðherra geti frestað vorinu líka, rétt eins og honum hefur nú hingað til tekist að fresta sumrinu og nóvembermánuði.