143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi, sbr. ályktun Alþingis nr. 1/142, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[11:57]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir ávarpið. Við í Bjartri framtíð höfum haft ákveðnar efasemdir um þessa skuldaleiðréttingarleið sem Framsókn boðaði fyrir kosningar og efumst um að hún sé réttlát og kannski raunhæf. Við samþykktum þingsályktunartillöguna sem stjórnin lagði fram í vor því að við ætluðum ekki að standa í vegi fyrir því að þessi mál yrðu skoðuð, þvert á móti viljum við að ítarleg greining liggi fyrir áður en nokkuð verður gert.

Það gildir sérstaklega um afnám verðtryggingarinnar. Það verður ekki gert nema að vel athuguðu máli.

Ég á mjög erfitt með að sjá fyrir mér hvernig þessi útfærsla á að vera. Það kemur þá bara í ljós. Ég skil ekki alveg hvernig hún á að geta orðið réttlát og hvernig á að vera hægt að leiðrétta hrun. Hvar verða mörkin dregin? Hverjir nákvæmlega fá leiðréttingu? Verður leiðréttingin fyrir þá sem áttu árið 2007 töluvert í húsnæði sínu en ákváðu að veðsetja það og nota peninginn til að fara til Flórída? Eða verður bara leiðrétt fyrir þá sem sannanlega eru með lán vegna fasteignakaupa? Hvar verður tímalínan dregin og verður eitthvert þak?

Síðan er spurningin, og það er stór spurning, hvernig og hvort svona aðgerð hafi áhrif á fjármálastöðugleika og hvort þetta sé besta meðferðin á almannafé. Það verður mikil áskorun að ná hallalausum fjárlögum, hvað þá að við förum að skila einhverjum afgangi. Því hefði ég haldið að það væri forgangsverkefni að lækka skuldir ríkisins. Það kemur sér vel fyrir alla.

Einnig má velta fyrir sér: Hvað með þá sem voru á leigumarkaði allan tímann? Hvernig á að leiðrétta hjá þeim? Við vorum hér í óundirbúnum fyrirspurnum í dag að tala um umboðsmann skuldara á Akureyri og það á að loka stofnuninni þar. Þá verður hún bara staðsett á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjanesbæ. Þýðir það að skuldavandinn sé mestur á suðvesturhorninu og hvernig verður þá leiðréttingin, verður þetta tilfærsla á fé frá landsbyggðinni til suðvesturhornsins þar sem skuldirnar eru mestar? Þetta eru allt hlutir sem við þurfum að fá úr skorið.

Mér finnst merkilegt að menn gefi kosningaloforð sem er svona flókið og var kannski meira hugmynd en beinlínis kosningaloforð. Síðan finnst mér eins og alveg hafi gleymst í umræðunni að Sjálfstæðisflokkurinn gaf ekkert eftir í þessum efnum. Það er hægt að sjá á heimasíðunni 2013.xd.is að þar eru boðaðar aðgerðir þar sem til dæmis er lofað allt að 40 þús. kr. skattafslætti vegna innborgana á íbúðarhúsnæði, afborgun sem leggst inn á höfuðstólinn. Þeir sem eru að safna fyrir íbúð áttu líka von á einhverjum skattafslætti og einnig má nefna þessa séreignarlífeyrissparnaðarleið sem fjallað var um hér áðan.

Þetta er ekki lítið loforð sem þarna er á ferð. Þess vegna vekur athygli að stjórnarflokkarnir skuli ekki vera, næstum sjö mánuðum eftir kosningar, búnir að koma sér niður á einhverja niðurstöðu í þessu máli. Báðir flokkarnir lofuðu einhvers konar skuldaleiðréttingu.

Ég er þeirrar skoðunar að hrun verði því miður ekki svo auðveldlega leiðrétt. Þess vegna er forgangsverkefni stjórnvalda alltaf að koma í veg fyrir hrun, að tryggja efnahagslegan stöðugleika til að minnka líkur á hruni. Hvers vegna? Vegna þess að hrun er óréttlátt og það bitnar mismunandi á fólki. Jafnvel eru dæmi um að fólk hafi grætt á hruninu. Ég væri alveg til í að eiga eignir í útlöndum núna og geta komið heim til Íslands og keypt krónur á hrakvirði.

Hrun er óréttlátt og það verður ekki svo auðveldlega leiðrétt. Þess vegna finnst mér ábyrgðarhluti þegar stjórnmálamenn tala eins og einhvern veginn sé hægt að leiðrétta hrunið og leiðrétta skuldirnar. Það er hægt að milda áhrifin, það er hægt að reyna að jafna byrðarnar og mér finnst ekki réttlátt þegar fyrri ríkisstjórn er sökuð um að hafa ekkert gert. Það var heilmikið gert en það er líka ljóst að það er enn hópur sem stendur illa og það þarf að finna úrræði fyrir þann hóp. Ef það væri auðvelt að leiðrétta hrunið væru stjórnarflokkarnir búnir að leggja fram einhverja lausn.

Þessar lausnir vantaði ekki í kosningabaráttunni. En við skulum bíða og sjá, við tökum í sjálfu sér tillögunum með opnum huga. Ég ætla ekki að gefa mér neitt en ég ítreka að það er líka hlutverk okkar stjórnmálamanna að tryggja að aðgerðir setji ekki efnahagslegan stöðugleika í hættu. Það er mjög mikilvægt.

Af því að ég hef nógan tíma ætla ég aðeins að halda áfram. Mér hefur fundist mjög merkilegt hvað allt í einu varð mikill áhugi, hjá stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum, á að bæta hag heimilanna. Það gerðist eftir hrun. Ég nefni sem dæmi að 14 sinnum var lagt fram á Alþingi frumvarp um greiðsluaðlögun, fyrst árið 1994. Það var ekki samþykkt fyrr en eftir hrun, 2009. Lögð voru fram þrjú frumvörp á tveggja vikna bili. Þá var hægt að samþykkja þetta frumvarp.

Frumvarp til laga um ábyrgðarmenn var lagt fram sjö sinnum. Það var samþykkt eftir hrun. Lög um innheimtu voru líka samþykkt einhvern tímann í hruninu, ef ég man rétt.

Mér finnst forvitnilegt að sjá hvað fjármálafyrirtækin höfðu mikil völd fram að hruni. Það var ekki einu sinni hægt að koma í gegn sjálfsögðum réttarbótum fyrir hin margumtöluðu heimili. Það var ekki hægt fyrr en bankarnir voru farnir á hausinn því að um leið og peningarnir hurfu hurfu völdin. Mér finnst þetta umhugsunarefni og mér finnst að stjórnmálaflokkar eigi alltaf að hafa hag heimila í fyrirrúmi, ekki bara þegar upp rís stór hópur, hávær hópur, af fólki sem talar fyrir skuldug heimili. Heimilin voru líka í vanda 1994, árið sem frumvarp um greiðsluaðlögun var flutt í fyrsta sinn. Þá höfðu bara fáir áhuga á málinu.

Ég ber hag heimilanna fyrir brjósti og mun aldrei láta segja annað um mig, en ég efast um að einhver millifærsla frá ríkissjóði til skuldugra heimila sé endilega gáfuleg framkvæmd. Stöðugur gjaldmiðill, lítil verðbólga og aukinn kaupmáttur er það sem heimilin þurfa. Við getum haldið áfram að tala um skuldaleiðréttingu til að draga athyglina frá hinu raunverulega vandamáli sem er ónýtur gjaldmiðill.

Hvenær ætla menn að horfast í augu við það? Hvaða áhrif hefði það til dæmis á heimilin ef vaxtastig í landinu mundi lækka?

Ég geri mér grein fyrir að þetta er efni í aðra umræðu. Ég vil bara ítreka að sá gjaldmiðill sem stjórnvöldum er svo umhugað um að halda í stendur beinlínis í vegi fyrir því að heimilin njóti þess. Heimilin þurfa kaupmáttaraukningu og lágt vaxtastig. Það yrði almenn aðgerð sem kæmi sér vel fyrir alla. Gjaldmiðill sem við notum núna er í raun bara ávöxtun á gengisfellingu með jöfnu millibili. Ríkið hefur ekki efni á að „leiðrétta“ þær gengisfellingar sem ríða yfir landið á einhverra áratuga fresti.

Skuldaleiðrétting er sértæk aðgerð og við skulum sjá hvað kemur út úr öllum þessum nefndum sem hæstv. ráðherra vitnaði í. Ég kalla eftir skýrri framtíðarsýn stjórnvalda. Hvernig ætla þau að tryggja hag íslenskra heimila með krónuna að vopni? Hvernig ætla þau að koma í veg fyrir annað hrun, aðra gengisfellingu? Hvernig ætla þau að tryggja að aðgerðir í þágu skuldugra heimila valdi ekki þenslu eða verðbólgu og hækki þar með aftur skuldir heimilanna?

Þeirri spurningu verða stjórnvöld að svara.