143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi, sbr. ályktun Alþingis nr. 1/142, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:09]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir góða og málefnalega umræðu um þetta stóra mál. Ég tek undir orð hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur, og vil jafnvel fá að beina orðum hennar til formanns Samfylkingarinnar og þingflokksformanns, um mikilvægi þess að við reynum að vera málefnaleg í þessari umræðu og sanngjörn og að við höldum fram réttum staðreyndum. Það er rétt, sem þingmaðurinn kom inn á, að mjög mikið var gert á síðasta kjörtímabili en við erum enn með skuldavandann til staðar, við höfum enn ekki leiðrétt þann forsendubrest sem varð. Þess vegna leggur ríkisstjórnin þessar tillögur fram.

Ég fagna líka því sem hefur komið fram — það kom alla vega fram varðandi Samfylkinguna — að menn telji rétt að fara í leiðréttingar. Ég tel mjög mikilvægt að það komi skýrt fram frá Samfylkingunni. Ég veit að aðrir stjórnarandstöðuflokkar hafa aðra afstöðu til skuldaleiðréttingarinnar og það ber að virða. En þegar við erum að tala um svona stórt og mikilvægt mál þá er mjög mikilvægt að við ræðum það málefnalega og sýnum hvert öðru sanngirni.

Ástæðan fyrir því að ég hef lagt svona mikla áherslu á aðgerðir vegna skuldamála er sú að grunnforsenda þess að við getum hafið nýtt vaxtarskeið og tryggt vinnu og velferð er að við tökum á skuldavanda íslenskra heimila. Í ljósi þess sem ég sagði varðandi sanngirnina vil ég segja að ef lausnirnar væru einfaldar þá værum við einfaldlega búin að framkvæma þær. En það vill líka oft vera þannig að það sem er auðvelt reynist lítils virði. Í mínum huga eru heimilin undirstaðan og þau eru drifkraftur samfélagsins. Á þeim byggist allt annað, án þeirra verður enginn vöxtur og engin velferð. Þess vegna segir svo skýrt í stjórnarsáttmálanum — eins og hv. þm. Vilhjálmur Árnason fór hér í gegnum, um það hvernig við hyggjumst taka markvisst á skuldavanda íslenskra heimila — að grunnviðmiðið sé að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007–2010. Við tölum um að beita megi bæði beinni niðurfærslu höfuðstóls og skattalegum aðgerðum í samræmi við áherslur beggja stjórnarflokka. Við erum líka sammála um að það eigi að vera almenn aðgerð óháð því hvenær fólk tók lán til að kaupa heimili sín, að lykilatriðið sé jafnræði. En það verður að vera hægt að beita fjárhæðartakmörkunum vegna hæstu lána sem og setja önnur skilyrði til að tryggja jafnræði í framkvæmd og skilvirkni úrræða. Þetta er ramminn sem verið er að vinna innan.

Ég vil líka segja um það að þeir sem ollu hruninu, ollu forsendubrestinum, hinir föllnu bankar, ættu að greiða fyrir leiðréttingu forsendubrestsins, það væri sanngjarnt og það væri réttlátt. Þess vegna töluðum við um það í stjórnarsáttmálanum. Ég vil hvetja menn til að lesa hann sem oftast — ég tel að hann sé mjög gott plagg, en vel má vera að menn séu misjafnlega sammála um það. Þar er einmitt talað um mikilvægi þess að halda þeim möguleika opnum að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð til að ná þeim markmiðum að taka á skuldavanda íslenskra heimila.

Þetta endurspeglast síðan í ályktuninni um skuldavanda íslenskra heimila, um sérfræðingahópinn til að útfæra mismunandi leiðir, að nýta tækifæri samhliða skuldaleiðréttingu til að breyta sem flestum verðtryggðum lánum í óverðtryggð, og þetta endurspeglast líka í þeirri aðgerðaáætlun sem við ræðum hér. Hæstv. forsætisráðherra hefur gert grein fyrir gangi þessara verkefna og að þegar sé hafinn undirbúningur að frumvörpum — þannig að ég taki fram að ekki er um að ræða eitt frumvarp. Þessar áherslur eru fyllilega í samræmi við áherslur beggja stjórnarflokka frá landsfundum og flokksþingi, í stjórnarsáttmálanum, í þingsályktunartillögunni sem við samþykktum í sumar og frumvarpi sem við höfum þegar lagt fyrir þingið og afgreitt. (Gripið fram í: Og kosningaloforðin ...)

Ég ætla aðeins að fá að rifja upp hvað við töluðum um í kosningabaráttunni. Sjálfstæðismenn töluðu um að taka á skuldavanda heimilanna þannig að ná mætti 20% lægri höfuðstól meðalíbúðaláns á næstu árum með skattafslætti og skattfrjálsum séreignarsparnaði, að tryggja ætti valfrelsi lántakenda þannig að verðtryggingin yrði ekki almenn regla, hvetja ætti til húsnæðissparnaðar — sem ég fagna sérstaklega, ég hef sjálf lagt fram frumvarp þess efnis hér á Alþingi — og breyta lögum um stimpilgjald, sem hefur þegar komið fram. Það skal að vísu viðurkennast, þrátt fyrir viðleitni þingflokksformanns Samfylkingarinnar hér, að við nefndum ekki ákveðna tölu í aðdraganda kosningabaráttunnar. Við lögðum hins vegar áherslu á forsendubrestinn sem varð við hrunið og á almenna höfuðstólslækkun til að leiðrétta verðtryggð húsnæðislán. Við nefndum líka skattalegar aðgerðir til að lækka höfuðstól lána og mikilvægi þess að afnema verðtryggingu af neytendalánum.

Þessu til viðbótar lögðu báðir flokkar áherslu á að taka húsnæðiskerfið til gagngerrar endurskoðunar, meðal annars að lögum yrði breytt þannig að lántaki gæti afsalað sér heimili sínu til lánveitanda án þess að það leiddi til gjaldþrots. Þar sem þetta er eitt af þeim verkefnum sem ég er með þá verð ég að segja að mér finnst hálfgerð synd að við skulum ekki ræða það meira því að þar undir er allt húsnæðiskerfi landsmanna, öll heimilin eru þar undir. Jafnvel mætti halda því fram að verkefnið sem Alþingi fól mér sé að einhverju leyti stærra en verkefnið sem Alþingi fól forsætisráðherra. Þar undir er hvert einasta heimili landsmanna og hvernig við viljum tryggja að fólk búi við val og öryggi til framtíðar. Við höfum þegar fengið fram skýrslur í nokkrum bindum um það hvaða áhrif það getur haft á íslensk heimili ef við vöndum okkur ekki. Ég vil hvetja þá sem tala um nefndir og vönduð vinnubrögð, þá sem tala það niður, til að lesa þær skýrslur.

Ég hef lagt mikla áherslu á víðtækt samráð þegar kemur að mótun á húsnæðisstefnu til framtíðar. Ég hef líka lagt áherslu á að við notum þá vinnu sem farið var í á síðasta kjörtímabili, að við förum ekki að endurvinna skýrslur sem þegar liggja fyrir. Við eigum að horfa til þeirrar góðu vinnu sem unnin var á síðasta kjörtímabili í velferðarráðuneytinu undir forustu þáverandi velferðarráðherra, hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, og hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur. Þar eru mjög góðar tillögur og góð vinna og við byggjum að sjálfsögðu á þeim. En við ætlum líka að fá hagsmunaaðila, þá sem hafa skoðanir, almenning, til að koma að þessari miklu vinnu. Ég vil ekki standa frammi fyrir því eftir nokkur ár að enn ein skýrslan komi út og gagnrýni það hvernig við stóðum að því að móta nýtt húsnæðiskerfi til framtíðar. Sú aðgerðaáætlun sem við samþykktum hér í sumar gengur út á það að taka á fortíðarvandanum en horfa jafnframt til framtíðar, horfa til þess hvers konar kerfi við viljum hafa hér til framtíðar.

Eins og hæstv. forsætisráðherra fór yfir þá eru aðrir liðir í þessari tillögu sem mér og hæstv. innanríkisráðherra var falið að vinna. Hæstv. forsætisráðherra fór yfir stöðuna hvað það varðar og ég vonast til þess að geta innan skamms mælt fyrir frumvarpi til laga um veitingu fjárhagsaðstoðar. Ég vonast eftir góðum stuðningi við það að gera eignalausum einstaklingum kleift að greiða kostnað vegna gjaldþrotaskipta af búi sínu. Ég vona að við tökum höndum saman. Við verðum ekki endilega sammála um allt en við skulum alla vega reyna að vera sanngjörn.