143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi, sbr. ályktun Alþingis nr. 1/142, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:18]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að þakka fyrir sumpart ágæta umræðu. Hvað varðar mótbárur þeirra sem hafa haft allt á hornum sér varðandi áform um skuldaleiðréttingu og framkvæmd hennar þá verð ég að segja að dregið hefur verulega úr áhyggjum mínum að stjórnarandstaðan geti þvælst mikið fyrir eða sá hluti stjórnarandstöðunnar sem hefur verið þessu andvígur vegna þess að helstu gagnrýnendur þessara tillagna og framkvæmdar þeirra mættu algjörlega tómhentir til þessarar umræðu, ekki hvað síst hv. þm. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sem virtist bara fálma eitthvað út í loftið í ræðu sinni hér áðan. Hv. þingmaður hélt því fram að síðasta ríkisstjórn hefði einmitt lagt áherslu á að skapa almennar og skýrar leikreglur. En það var beinlínis stefna síðustu ríkisstjórnar að gera það ekki. Hún vildi beita sér með sértækum aðgerðum og talaði gegn beitingu almennra aðferða við að fást við skuldavanda heimilanna.

Hv. þingmaður hélt því líka fram að samráð við stjórnarandstöðuna hefði verið aðalatriðið í öllum aðgerðum í þágu skuldsettra heimila og síðasta ríkisstjórn hefði lækkað skuldir heimilanna um 200 milljarða kr. og gleymdi því algjörlega, eins og sumir aðrir, að það var fyrst og fremst Hæstiréttur Íslands sem kom að því að lækka skuldir heimilanna á síðasta kjörtímabili þó að ríkisstjórnin sú reyni nú að eigna sér það allt saman.

Svo er því haldið fram að það hafi heilmikið verið í vændum ef menn hefðu bara haft meiri tíma og þá gleymist að forustumenn síðustu ríkisstjórnar héldu sérstakan blaðamannafund til að tilkynna það að nú væri búið að gera allt sem ætti að gera vegna skuldavanda heimilanna.

Virðulegur forseti. Verst var þó að hlýða á hv. þm. Árna Pál Árnason reyna að halda því fram að ekkert hefði staðist í áætlun um framkvæmd þessa máls. Að sá dagur færðist sífellt fjær að kynntar yrðu niðurstöður. Þetta er bara vitleysa. Það hafa allar tímaáætlanir í málinu staðist og ljóst að þær munu standast. Þess vegna er heldur aumt að lýsa því síðan yfir að við vitum ekkert hvort það verði nokkuð komið fyrir áramót. Ég var að rekja það hér í upphafi umræðunnar að vinnan gengi vel og hún væri samkvæmt áætlun þannig að það er nú lítið hægt að gefa fyrir svona málflutning.

Augljóslega, eins og kom fram í allri umræðu í aðdraganda kosninga, þurfti að afla gagna og undirbúa þessar umfangsmiklu aðgerðir. Um það var ekki deilt. Okkur framsóknarmönnum var meira að segja legið á hálsi fyrir að vera að kynna tillögur, vera með stefnu í kosningum sem væri ekki hægt að framkvæma fyrr en að undangenginni undirbúningsvinnu að kosningum loknum. Fyrir þetta vorum við gagnrýnd aftur og aftur og aftur. Síðasta vígi gagnrýnenda flokksins og tillagna hans var að flokkurinn væri með tillögur sem menn vissu ekkert um hvenær hægt yrði að framkvæma. Daginn eftir kosningar og áfram að einhverju leyti í þeirri umræðu leyfa menn sér að halda því fram að það hafi bara strax daginn eftir kosningar átt að koma ávísun inn um bréfalúguna hjá fólki. Það er náttúrlega ekki uppbyggileg eða gagnleg umræða um stefnu, hvað þá svona stórt og mikilvægt mál.

Að vísu er vísað í það að því hafi verið haldið fram í einni færslu á Facebook að framkvæmdin kæmi strax, þ.e. áhrifin kæmu strax á skuldir heimilanna. Það var þá tekið algjörlega úr samhengi við þá umræðu sem þá var í gangi en hún var nefnilega sú að hv. þm. Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, hafði haldið því fram með því að snúa út úr orðum hv. þm. Frosta Sigurjónssonar að framsóknarmenn ætluðu, eftir að tillögum yrði hrint í framkvæmd, að láta líða 20 ár þar til að lokið yrði við framkvæmdina. Það var útskýrt af mér og öðrum að þegar leiðréttingunni yrði hrint í framkvæmd þá kæmi hún til áhrifa strax en það tæki ekki 20 ár eins og hv. þingmaður hafði reynt að komast að niðurstöðu um á mjög sérkennilegan hátt.

Virðulegur forseti. Aðalatriðið er að þrátt fyrir að það sé vissulega rétt að þau fyrirheit sem voru gefin í kosningunum hafi verið mjög stór þá liggur fyrir að allt er samkvæmt áætlun við framkvæmd þeirra fyrirheita. Allt er samkvæmt áætlun, eða ætlar einhver að leggjast gegn því að þegar ráðist er í skuldaleiðréttingu, sem er hægt að halda óhikað fram að verði sú mesta sem nokkurs staðar hafi verið, alla vega á síðari tímum, þá sé eitthvað óeðlilegt við það að leita til sérfræðinga og vinna undirbúningsvinnu? Eru menn á móti rannsóknum, varfærni, faglegum vinnubrögðum? Það getur ekki verið, virðulegi forseti, jafnvel þó að þeir séu andvígir hugmyndinni. Hv. þingmenn Bjartrar framtíðar mega þó eiga það, þeir eru bara andvígir hugmyndinni um þetta en þeir styðja þó fagleg vinnubrögð.

Virðulegi forseti. Hér er allt samkvæmt áætlun og ekki seinna vænna að unnið sé skipulega og vel að því að koma til móts við skuldsett heimili fimm árum eftir efnahagshrunið þegar skuldir fyrirtækja, ef allt er meðtalið, hafa lækkað um helming, 4.000 milljarða, 4.000 milljarðar hafa verið afskrifaðir hjá fyrirtækjunum. Verulegur hluti gengisdreifðra lána, myntkörfulána heimilanna var afskrifaður eftir dóm Hæstaréttar á meðan sáralítið hefur gerst hjá þeim mikla fjölda heimila sem eru með verðtryggð lán. Og af því að hér voru nokkrir hv. þingmenn sem spurðu: Fyrir hverja er þetta? Þetta er fyrir, eins og lýst er í stjórnarsáttmála, alla þá sem urðu fyrir tjóni vegna hins ófyrirséða verðbólguskots áranna 2007–2010 og þá sem urðu fyrir áhrifum af því á verðtryggðum fasteignalánum sínum óháð því hvað hefur gerst í millitíðinni. Þar er verið að klára að koma til móts við hóp sem hefur verið vanræktur í fimm ár á meðan reynt hefur verið að bæta úr stöðu ýmissa annarra. Það er ekki seinna vænna að við framkvæmum þetta nú og gerum það faglega og vel.