143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

95. mál
[14:45]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurn hv. þm. Kristjáns L. Möllers. Varðandi þetta tiltekna atriði í þessu frumvarpi þá hefur það engin áhrif þar á. Þarna væri fyrst og fremst um að ræða frárennslismál og annað í þeim dúr varðandi færanlega starfsemi. Það sem snýr að þessari færanlegu starfsemi sem getur valdið loftgæðamengun eða einhverri annarri mengun á einum stað heyrir ekki undir nákvæmlega þennan þátt.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi um að slíkar framkvæmdir þyrftu að fara í umhverfismat þá er það nokkuð sem við þurfum að skoða því að þegar menn fara í framkvæmdir, til að mynda eins og við endurgerð brúar yfir Múlakvísl, þá hljómar það auðvitað ankannalega að möl sem tekin er upp úr farvegi árinnar eða þar í kring með leyfi skuli þurfa umhverfismat til áður en slíkar framkvæmdir hefjist. Þetta er nokkuð sem við í stjórnsýslunni þurfum að skoða.