143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

matvæli.

110. mál
[14:47]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um matvæli, nr. 93/1995, sem er þskj. 113, 110. mál. Frumvarpið er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í samráði við Matvælastofnun.

Í því er lagt til að gerðar verði breytingar á lögum um matvæli. Nánar tiltekið fjallar frumvarpið um opinbert eftirlit með efnum og hlutum er komast í snertingu við matvæli, en um slíkt eftirlit er fjallað í 14. gr. laganna. Þeim sem framleiða, flytja inn eða dreifa efnum og hlutum sem ætlað er að vera í snertingu við matvæli er skylt að gæta þess á öllum stigum að vörur þeirra spilli ekki þeim matvælum sem þær eru ætlaðar fyrir þannig að þau stofni heilbrigði manna í hættu, gæði þeirra rýrni eða matvælin teljist óneysluhæf.

Framangreint eftirlit með efnum og hlutum nær til allra umbúða, íláta, áhalda, tækjabúnaðar og borðbúnaðar sem komast í snertingu við matvæli.

Ástæður þess að frumvarp þetta er lagt fram eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi kveða lög um matvæli ekki skýrt á um heimild eftirlitsaðila til að innheimta gjald vegna kostnaðar við eftirlitið. Því er lagt til að lögfest verði skýr heimild til gjaldtöku. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að bæði Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna innheimti allt að raunkostnaði vegna eftirlits með þessum vörum.

Í öðru lagi þykir núverandi lagaumhverfi óljóst hvað varðar hlutverk eftirlitsaðila. Við því er brugðist í frumvarpinu með því að lögð er til skýr verkaskipting milli opinberra eftirlitsaðila í samræmi við núverandi fyrirkomulag matvælaeftirlits. Gert er ráð fyrir að Matvælastofnun fari með eftirlit með innflutningi þessara vara. Ástæða þess að Matvælastofnun er falið framangreint innflutningseftirlit er sú að stofnunin sinnir innflutningseftirliti með matvælum og er þannig vel í stakk búin til að annast samskipti við tollayfirvöld, farmflytjendur og innflutningsaðila.

Annað eftirlit á þessu sviði, þ.e. með framleiðslu og dreifingu þessara vara, er falið heilbrigðisnefndum sveitarfélaganna í samræmi við núverandi fyrirkomulag matvælaeftirlits, en heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna fara með eftirlit með matvælum á markaði.

Í þriðja lagi þykir rétt að kveða skýrt á um tilkynningarskyldu eftirlitsskyldra aðila um starfsemi sína til heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna þannig að eftirlitsaðilar hafi upplýsingar um eftirlitsskylda starfsemi. Reglugerðarheimild er í núgildandi lögum um matvæli þar sem ráðherra er heimilt að setja með reglugerð ákvæði um tilkynningarskyldu eftirlitsskyldra aðila. Eðlilegra þykir að tilkynningarskylda þessara aðila sé bundin í lög fremur en að hún sé byggð á reglugerð ráðherra. Markmiðið með tilkynningarskyldu er að gera eftirlitið skilvirkara.

Í fjórða lagi eru lagðar til breytingar á orðalagi 14. gr. laganna um matvæli. Þannig er orðalagi breytt til samræmis við notkun hugtaka innan laganna og eins milli laganna og stjórnvaldsfyrirmæla sem sett hafa verið samkvæmt þeim. Jafnframt eru lagðar til breytingar á orðalagi til að lagfæra ósamræmi milli málsgreina í 14. gr. laganna.

Loks er gert ráð fyrir skýrri reglugerðarheimild fyrir ráðherra til að setja reglugerð um efnainnihald og viðmiðunarmörk fyrir efni og hluti sem ætlað er að vera í snertingu við matvæli.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu atriðum frumvarpsins og ástæðum fyrir framlagningu þess og legg til að því verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.