143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

matvæli.

110. mál
[14:54]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Það frumvarp sem hæstv. ráðherra hefur hér flutt er endurflutningur á máli sem lagt var fram á 141. löggjafarþingi. Eins og hér kemur fram er það lagt fram aftur efnislega óbreytt. Það gerir að verkum að í 1. umr. þarf ekki að ræða frumvarpið mikið, en ég get þó sagt að á 141. þingi varð það ekki að lögum, einfaldlega vegna þess að við féllum á tíma í þáverandi atvinnuveganefnd sem ég var formaður í og náðum ekki að klára það. Hér er málið endurflutt óbreytt og kemur til nefndarinnar til frekari umfjöllunar. Við getum ef til vill frekar sagt eða sett fram sem spurningu að ef þingsköp okkar væru þannig að mál mættu lifa eitt eða tvö þing hefði ekki þurft að endurflytja frumvarpið núna, atvinnuveganefnd hefði getað unnið það milli þinga og klárað. Þetta er nú sett fram í gamansömum tón, en líka aðeins til umhugsunar.

Það er kannski fyrst og fremst 3. gr. sem ég hef staldrað aðeins við. Þar er kveðið skýrar á um heimild eftirlitsaðila til að innheimta gjald vegna kostnaðar við eftirlitið. Í umsögn frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu kemur fram að kostnaður Matvælastofnunar sé áætlaður um 1,5 millj. kr. á ári. Það verður vonandi líka sett hér inn og það verður verkefni okkar í nefndinni, að kveða skýrt á um að eingöngu sé verið að leggja þann raunkostnað á en ekkert meira. Við þekkjum það vel, alþingismenn, að margar athugasemdir hafa komið inn, annars vegar við hið stóraukna og mikla eftirlit — eftirlitsiðnaðinn eins og hann er kallaður — svo og álögur sem lagðar eru á aðila vegna eftirlits opinberra stofnana. Þarna er gert ráð fyrir því að bæði Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga innheimti allt að raunkostnaði vegna eftirlits með þessum vörum.

Í raun og veru er þetta dálítið mikið opin gjaldtaka. Maður veit ekki hvernig þessar stofnanir, Matvælastofnun og svo heilbrigðisnefndirnar, kortleggja þetta. Í umsögn fjármálaráðuneytisins segir að atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið reikni með að árlegur kostnaður Matvælastofnunar muni aukast um 1,5 millj. kr., en þarna er ekki fjallað um aukinn kostnað heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna.

Ég vildi bara vekja athygli á því að þetta er opnun, opin gjaldtaka. Við getum þó nálgast þetta hinum megin frá og sagt að þeir aðilar sem þurfa að fá þjónustu eigi að borga fyrir hana. Við skulum bara hafa í huga að þetta fer auðvitað út í verðlagið þótt lítil upphæð sé. Það er bara eins og með önnur gjöld sem lögð eru á.

Þá er hér líka kveðið fastar á um að Matvælastofnun sé falið innflutningseftirlit. Það er vegna þess að sú stofnun sinnir innflutningseftirliti með matvælum og er þannig betur í stakk búin til að annast þau samskipti við tollayfirvöld, farmflytjendur og innflutningsaðila en heilbrigðisnefndir sveitarfélaga sem eru tíu talsins. Ég er efnislega alveg sammála því. Hitt var of flókið. Þetta er einfaldara. Það eru sem sagt tíu sjálfstæðir eftirlitsaðilar, heilbrigðisnefndirnar, en þarna fellur þetta verk í rauninni undir einn aðila sem er með stóran hluta af þessu sviði.

Síðan er kveðið á um og hnykkt betur á tilkynningarskyldu aðila um þessa starfsemi. Þar kveður hins vegar við annan tón því þar eru heilbrigðisnefndirnar meira inni, eða eins og segir í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Í þriðja lagi þykir rétt að kveða á um tilkynningarskyldu eftirlitsskyldra aðila um starfsemi sína til heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna þannig að eftirlitsaðilar hafi upplýsingar um eftirlitsskylda starfsemi.“

Síðan er hugtakabreyting í frumvarpinu sem er auðvitað sjálfsögð og eðlileg. Eins og ég sagði var málið lagt fram á 141. þingi og þá gat atvinnuveganefnd ekki klárað það vegna annarra stóra mála sem við vorum með og vannst ekki tími til þess. Ég kann reyndar ekki að svara því af hverju frumvarpið var ekki flutt á 142. þingi, en það var auðvitað stutt. En hér er það komið og kemur til atvinnuveganefndar. Ég trúi ekki öðru miðað við þá samstöðu sem var í nefndinni um þetta frumvarp en að það klárist núna á tilskildum tíma. Það var búið að vinna töluvert mikla undirbúningsvinnu og þeirri vinnu höldum við áfram. Þess vegna held ég að frumvarpið hljóti að eiga góða og greiða leið í gegnum atvinnuveganefnd.