143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

matvæli.

110. mál
[14:59]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málefnalega umræðu um þetta mál.

Vegna ábendinga hv. þm. Kristjáns L. Möllers um kostnað vil ég segja að það er rétt að innflutningseftirlitskostnaður upp á 1,5 millj. kr. er nýr, en kostnaður hjá heilbrigðiseftirlitssvæðunum fellur til af því að þetta hluti af því eftirliti sem þau viðhafa með matvælafyrirtækjum og það er væntanlega ekki nýr kostnaður.

Varðandi skiptinguna þar á milli er það líka efni sem áhugavert væri að ræða í atvinnuveganefnd og hefur komið til tals að ræða það hér í framhaldinu og taka upp skoðun á því með hvaða hætti það eigi að vera. Hér gætu komið inn frumvörp á vorþingi þar sem við veltum fyrir okkur hvar nákvæmlega eftirlitið og starfsleyfin eiga að vera. Það er efni sem gaman væri að taka upp í lengri umræðu á þingi, en það er kannski ekki tilefni til þess vegna þessa frumvarps. Þar skiptir máli hvernig við skiptum upp stjórnsýslu og eftirliti hér á landinu öllu, milli ríkis og sveitarfélaga og sjáum hvernig þessu er best fyrir komið almennt séð.

Varðandi síðan tilkynningarskylduna er það fyrst og fremst spurning um lagastoð til að hún sé fyrir hendi. Það er auðvitað mjög óþægilegt að eftirlitsaðilar þurfi að fylgjast með auglýsingum í blöðum um það hvort ný fyrirtæki hafi tekið til starfa og er miklu eðlilegra að þau séu skylduð til þess að láta vita um að þau séu að hefja starfsemi og geta þar með sótt um starfsleyfi.