143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

tollalög.

137. mál
[15:01]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005, sem er þingskjal 154, 137. mál. Frumvarpið er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í samráði við ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara, samanber 87. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.

Í frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á á 3. mgr. 12. gr. tollalaga. Ákvæðinu var síðast breytt með lögum nr. 160/2012, um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og tollalögum. Það fjallaði um úthlutun tollkvóta og fóðursjóð sem samþykkt voru á 141. löggjafarþingi.

Úthlutun tollkvóta samkvæmt þessu ákvæði er úr viðaukum IVA og B við tollalög, en gripið er til þessara kvóta þegar aðstæður á innanlandsmarkaði gefa tilefni til. Þetta á einkum við í þeim tilvikum þegar innanlandsframleiðsla annar ekki tímabundinni eftirspurn og/eða fyrirsjáanlegt er að innlend framleiðsla verði ekki til staðar í nægjanlegu magni.

Samkvæmt 3. mgr. 12. gr. tollalaga skal tollur reiknaður sem mismunur á ríkjandi heildsöluverði samkvæmt upplýsingum frá að minnsta kosti tveimur leiðandi ótengdum dreifingaraðilum og innflutningsverði, samkvæmt meðaltali tollverðs síðastliðinna sex mánaða.

Við beitingu 3. mgr. 12. gr. laganna komu í ljós ákveðnir vankantar við ákvörðun á tolli. Sú aðferð sem tilgreind er í ákvæðinu leiðir að minnsta kosti í sumum tilfellum til þess að tollur á dýrari vörur verður umtalsvert hærri en á ódýrari vörur. Því þarf að bregðast við til að geta stillt tolla betur af miðað við verðlag innan lands.

Með frumvarpinu er lagt til að bætt verði sú aðferð sem tilgreind er í 3. mgr. 12. gr. tollalaga með nákvæmari viðmiðum og um leið sett ákveðið hámark sem magntollur innan tollkvóta skal bera úr viðauka IVA og B við tollalög.

Tilgangurinn með breytingunni er að draga úr hættu á að magntollar skili sér í hærra verðlagi til neytenda.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu atriðum frumvarpsins og ástæðunni fyrir framlagningu þess og legg til að eftir 1. umr. verði því vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.