143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

tollalög.

137. mál
[15:09]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég lærði einu sinni vísu sem endaði á þann veg: „Eru á ferli úlfur og refur / í einum og sama manninum.“ Ekki ætla ég neinum hér í sal að á ferli sé úlfur og refur í einum og sama manninum. En því hefur nú verið komið fyrir í ríkisstjórn Íslands að sami maðurinn gegni embætti landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra. Hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra leggur hér fram frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005.

Þegar ég fletti upp í lagasafni er vísað til þess að: „Ef í lögum þessum [þ.e. tollalögum] er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við fjármála- og efnahagsráðherra eða fjármála- og efnahagsráðuneyti sem fer með lög þessi.“

En hæstv. landbúnaðarráðherra væntanlega flytur þetta frumvarp. Ég hef hugleitt það eftir að frumvarpið kom fram hvort sjávarútvegsráðherra hafi hugsað til þess hvaða áhrif það hefði á lífskjör þjóðarinnar ef sjávarútvegsráðherrar eða fjármálaráðherrar eftir atvikum í öðrum löndum settu viðlíka ákvæði í tollalög annars staðar varðandi innflutning á íslenskum fiskafurðum. Og hvort við séum ekki í rauninni dálítið aftarlega á merinni á sama tíma og verið er að draga úr hömlum í viðskiptum á milli landa, að halda hér enn í ýmsa fornlega tolla til verndar landbúnaði. Hefur hæstv. sjávarútvegsráðherra hugleitt það hvaða áhrif þetta hefur á lífskjör þjóðarinnar?

Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.