143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

tollalög.

137. mál
[15:16]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málefnalega umræðu hv. þingmanna og vil í lokin, án þess að lengja umræðuna á þessu stigi, segja að tollalög eru flókin. Þetta er verðugt verkefni hjá hv. atvinnuveganefnd. Ég treysti henni fullkomlega til þess að takast á við þetta mál og fjalla um það. Eins og kemur fram er tilgangur breytinganna að hafa ekki óeðlileg áhrif á verð á dýrustu vöruflokkunum sem það kerfi sem áður var hafði því miður, það gat við ákveðnar aðstæður haft þær afleiðingar. Þetta er því ívilnandi fyrir neytendur í landinu og er jákvætt að því leyti.

Eins og hér hefur komið fram er verslun með matvöru í heiminum satt best að segja mjög þröngum reglum háð í allflestum löndum. Er þar rétt að nefna að sum stór lönd sem byggja allt sitt á viðskiptum og útflutningi þurfa að takmarka útflutning, eins og til að mynda Japan sem hefur gripið til lagasetninga sem bannar útflutning á vöru, t.d. til þess að forðast skort á hrísgrjónum ef svo ber undir. Evrópusambandið, Bandaríkin og Rússland geta gripið til slíkra aðgerða og takmarka land sem notað er til matvælaframleiðslu eða lífdísilframleiðslu, eins og Evrópusambandið hefur gripið til síðustu missiri.

Satt best að segja eru þær vörur, sem fara á markað þar sem menn geta keypt ódýrar vörur, af því tagi sem „dömpað“ er niður, vörur sem menn vilja losa sig við af mörkuðum. Það er kerfi sem við fórum út úr á Íslandi fyrir allmörgum árum. Þar eru engar útflutningsbætur greiddar heldur er útflutningur fyrst og fremst markaðsdrifinn og á ábyrgð framleiðenda í landinu.

Eins og ég kom inn á í inngangserindi mínu eða líklega í andsvari við hv. þm. Kristján L. Möller erum við fámenn þjóð og framleiðslan hér er viðkvæm. Ég hef íhugað áhrifin af því ef menn færu hér að flytja inn „dömping-vörur“, afsakið orðbragðið herra forseti, þ.e. vörur sem menn eru búnir að lækka eins og er hægt til að losa sig við þær. Ef við ætlum að treysta á þau matvæli, annars vegar fæðuöryggisins vegna og hins vegar matvælaöryggisins vegna, ef það er sú vara sem á að vera undirstaða okkar í matvælum hef ég miklu meiri áhyggjur af lífskjörum þjóðarinnar og áhrifum þess á þau.

Ég hef líka miklu meiri áhyggjur af lífskjörum þjóðarinnar ef við tækjum út hér heilu stéttirnar sem byggja á nýtingu lands í þeim kerfum sem notuð eru í öðrum vestrænum löndum en að við horfum á tolla sem allmörg lönd nota til þess m.a. að verja innanlandsframleiðslu sína og til þess að stýra eðlilegu framboði á markaði. Við erum með ákveðið kerfi og hér er gerð ein lítil breyting á því sem er ofan í kaupið mjög ívilnandi fyrir neytendur í landinu.