143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

140. mál
[15:37]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er gamall kunningi á ferð. Eins og hæstv. ráðherra fjallaði um var það lagt fram bæði á 140. og 141. löggjafarþingi en kláraðist ekki vegna þess að málið var stórt, mikið og flókið. Mig minnir að þar hafi verið inni sektir sem rugluðu svolítið dæmið og margir gerðu athugasemdir við. Ég fagna því líka að brugðist hefur verið við athugasemdum og öðru sem kom þegar þetta var lagt fram fyrst og hefur verið tekið tillit til þess núna. Ég ætla ekki að gera það að umtalsefni, en í athugasemdum í innganginum kemur það fram.

Það sem mér finnst merkilegast í frumvarpinu, og það var tilefni þess að umræðan hófst, er að framleiðendum og dreifingaraðilum áburðar verði gert skylt að leggja fram vottorð vegna kadmíums í áburði, tilkynna breytingar á efnainnihaldi til Matvælastofnunar og stöðva markaðssetningu áburðar ef hann telst ekki öruggur til notkunar.

Þetta er ákaflega mikilvægt eftir umræðu sem varð hér sennilega fyrir tveimur árum þegar þessi kadmíumumræða öll fór á stað. Ég ætla ekki að spyrja hæstv. ráðherra út í það hér og nú en það verður verkefni okkar í atvinnuveganefnd að fjalla um skýrleika vottorða sem fylgja með frá framleiðendum erlendis og hvernig brugðist skuli við. Ef ég man rétt var einhvern tímann munur á uppgefnum vottorðum og þeirri niðurstöðu sem birtist í ábyrgðum eftir skoðun hér heima. Ef það getur mögulega átt sér stað, ef það er ekki í frumvarpinu, held ég að það sé verkefni okkar í atvinnuveganefnd að fara í gegnum það ef slíkar athugasemdir koma frá umsagnareftirlitsaðilum.

Í öðru lagi eru settar fram breytingar varðandi fóðureftirlit. Það held ég að sé líka til mikils skýrleika. Í þriðja lagi er talað um ábyrgðir sem gilda um fóður, áburð og sáðvöru. Til að mynda er þar áréttuð ábyrgð fóður-, áburðar- og sáðvörufyrirtækja á því að efnainnihald eða eiginleikar vörunnar séu í samræmi við skráða vörulýsingu. Það er ákaflega mikilvægt, virðulegi forseti, að þetta er sett þarna fram til þess að gera eftirlitið skilvirkara. Ekki veitir af að hafa það eins skýrt og hægt er og jafnframt einfalt ef hægt er við þetta mál sem getur verið mjög flókið en ræður mjög miklu eins og kom fram þegar kadmíumumræðan hófst hér fyrir líklega tveimur árum.

Jafnframt er byggt á fenginni reynslu og hnykkt á ákveðnum hlutum hvað það varðar.

Að lokum fagna ég því líka, virðulegi forseti, sem í frumvarpinu segir um heimild til að leggja á stjórnvaldssektir, að ráðherra setji í reglugerð sektarupphæðir. Þetta tel ég ákaflega mikilvægt og fagna því að það skuli gert á þann hátt í staðinn fyrir að hafa það þannig að ef brot eru framin sem gætu verið mjög alvarleg og varða auðvitað matvælaöryggi og ferskleika vöru og hollustu, að setja það frekar inn í stjórnvaldssektir en að menn þurfi að höfða mál til að dæma þá brotlegu ef einhverjir eru. Að mínu mati hefur dómskerfið nóg annað að gera en að fást við svona mál. Þau eiga ekki endilega að fara inn í dómskerfið í flókið og langt ferli. Dómstólar hafa nóg að gera í öðrum og alvarlegri málum. Þótt þetta sé að sjálfsögðu mjög alvarlegt held ég að stjórnvaldssektirnar eigi alveg að geta dekkað það og eigi að vera nægjanleg aðvörun og áminning til aðila um að fara að settum lögum og reglum. Annars koma töluvert háar stjórnvaldssektir til.

Það er fyrirbyggjandi og það er skýrleiki. Ég segi þetta með tilliti til reynslu um sektir vegna til dæmis ökuhraða eða annarra umferðarlagabrota sem ég hika ekki við að halda fram að hafa skilað góðum árangri og eru miklu einfaldari leið en að fara með hvert mál inn í dómsali.