143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

síldarútvegsnefnd og sjóðir í þágu síldarútvegsins.

146. mál
[15:54]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Varðandi frumvarpið og þetta mál er rétt að þarna er verið að grípa til þess að nota fjármuni sem eru til vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem er uppi í Kolgrafafirði og þeirrar staðreyndar að það hafi orðið verulegur kostnaður við síldarrannsóknir. Þetta mun skipta okkur miklu máli, því að það er rétt að talið er þarna hafi drepist í fyrra um 50 þús. tonn og gætu verið verðmæti upp á 2–3 milljarða. Ef það yrði aftur tjón, ef þetta gæti gerst aftur, gæti það verið á bilinu 1–4 milljarðar fyrir utan umhverfislegt tjón á lífríkinu og kostnað við hreinsanir.

Þess vegna var settur á laggirnar strax í fyrra samráðshópur sem hefur starfað öðru hvoru og í sumar var settur aukinn kraftur í þann hóp. Ég óskaði meðal annars eftir því sem umhverfisráðherra að Umhverfisstofnun mundi koma með viðbragðsáætlun. Hún var unnin hér á haustdögum, en hún á reyndar fyrst og fremst við ef það yrði tjón og hvernig menn brygðust við því. Á sama tíma var jafnframt óskað eftir því við samráðshópinn að menn horfðu til þess hvernig mætti forða tjóni, hvernig við gætum komið í veg fyrir það.

Nú hefur hv. þingmaður sett hér á dagskrá, óundirbúið, eiginlega sérstaka umræðu um Kolgrafafjörð þannig að ég set fyrirvara um að ég muni allar tölur og allar þær hugmyndir sem menn hafa sett fram í þessum efnum. En ég bið þingmenn um að óska eftir slíkri sérstakri umræðu ef þörf er talin á, til þess að geta farið nánar yfir þetta.

Það hafa sem sagt fjölmargar hugmyndir komið upp, m.a. ýmsar óskir heimamanna eins og hv. þingmaður benti á. Menn hafa til dæmis velt fyrir sér hvort hægt væri að loka firðinum, en það var kannski fyrir fram talið illgerlegt. Við ráðherrar ríkisstjórnarinnar, innanríkisráðherra sem kemur þarna að máli fyrst og fremst vegna Vegagerðarinnar en líka sem sveitarstjórnarráðherra, og ég sem umhverfisráðherra, settum það í gang að finna gáfulegustu tillögurnar. Við mundum gera það sem gera þyrfti og taka þær ákvarðanir sem þyrfti til að koma í veg fyrir að tjón yrði, annars vegar til þess að geta hugsanlega nýtt þetta sem þjóðhagsleg verðmæti og hins vegar að koma í veg fyrir tjón á stofninum og umhverfinu.

Þess vegna er til skoðunar hvað þarf til að loka firðinum. Vegagerðin og Hafrannsóknastofnun hafa sett upp ákveðin tæki þar og mæla. Þær niðurstöður liggja þó ekki fyrir að öllu leyti fyrr en næsta vor, það tekur sem sagt langan tíma að fá allar þær mælingar þó að tækin séu löngu upp sett. Það er í raun og veru verið að mæla heilt ár að einhverju leyti.

Hluti af þeim kostnaði sem þarna er inni er að verið er að setja viðbótarstraummæla, sírita og súrefnismæli til að mæla ef það gerist að þarna kæmi inn síld í miklu magni eða vegna einhverra annarra aðstæðna, veðuraðstæðna eða slíks, og súrefnismettun færi óeðlilega langt niður, og færi það langt niður að meira að segja síld drepst, en hún sækir í súrefnisfirrtan og kaldan sjó, þess vegna fer hún þarna inn í fjörðinn. Þegar hún kemur í mjög miklu magni klárar hún einfaldlega það súrefni sem fyrir er. Ein af ástæðunum fyrir því að hún kemur þarna inn eru háhyrningar, einu sinni í fyrra voru taldir 225 háhyrningar eða hvalir fyrir utan sem voru að smala síldartorfunni inn, hún var kannski 270 þús. tonn eða meira í þessum mjóa, þrönga firði.

Það sem hefur verið nefnt til sögunnar er að loka firðinum. Það er talið kosta 500–600 millj. kr. og tæki í það minnsta þrjá mánuði, þ.e. tvo mánuði í undirbúningi og einn mánuð í framkvæmdum. Við sjáum að það yrði þar af leiðandi eiginlega útilokað að gera það í vetur miðað við það tjón sem varð í fyrra, annars vegar síðla í nóvember og hins vegar í byrjun janúar. Það er einnig viðamikil ákvörðun, en menn mundu auðvitað ýta því til hliðar ef sú lausn kæmi til greina.

Þá hefur einnig verið skoðað hvernig hægt er að koma í veg fyrir að síldin fari þarna inn með svokallaðri loftbólugirðingu sem sett væri við brúna. Það fylgir því líka umtalsverður kostnaður og óvíst um árangur. Það hefur líka verið talað um að dæla súrefni eða lofti inn í fjörðinn til þess að viðhalda hárri súrefnismettun í firðinum og koma þannig í veg fyrir að síld sæki þarna inn, af því að súrefnið verði svo mikið, og líka til þess að lofta hann. Það hefur líka verið rætt um að setja fyrir utan brú svokallaða skilmu, sem gamlir síldarsjómenn þekkja, þetta var notað fyrir 40–50 árum, með hvítum, stórum hlerum. Þeir voru notaðir til að smala síldinni inn eða halda henni inni í nótinni hér fyrir 50 árum en yrðu í þessu tilviki notaðir til þess að fæla hana frá. Það er ekki talið mögulegt að loka með nót eða einhverju slíku, hún mundi fyllast strax og það kæmi stór síldartorfa og mundi rífa hana.

Það hafa því verið skoðaðar fullt af hugmyndum. Ein er sú að ef það gerist að síldin fer þarna inn og við sjáum það í síritanum, sem m.a. þessir peningar eiga að nýtast til að kaupa, væri hugsanlegt að heimila veiðar smábáta þarna til að veiða síldina og bjarga þeim verðmætum.

Allt eru þetta tillögur sem eru núna til skoðunar í samráðshópnum og sérfræðingar eru að skoða og við vitum ekki nákvæmlega hvernig það endar. En það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að sem betur fer hefur síldin ekki hagað sér með sama hætti og í fyrra. Hún hefur verið í minna mæli á Breiðafirði, þeir sem hafa verið að veiða hafa átt erfiðara með að veiða hana og hún hefur lítið sést í Kolgrafafirði. Vonandi forðast hún hreinlega þann stað, hún hafi lært af reynslunni þó að kannski sé nú ekki hægt að fullyrða neitt um slíkt, hvort hún geti gert það. En það eru ákveðnar vísbendingar um breytta hegðun síldarinnar en sú hætta vofir hins vegar yfir að hún komi aftur inn í fjörðinn.

Þá er það verkefni okkar í stjórnsýslunni, hvort sem er í ráðuneytum eða hjá sveitarstjórn, sem ber auðvitað líka mikla ábyrgð á verkinu, að við séum tilbúin að taka á þeim þáttum og gera það sem gera þarf til að forðast tjón, en ef af tjóni verður að vera þá tilbúin með viðbragðsáætlun til að geta brugðist hratt og örugglega við.