143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

síldarútvegsnefnd og sjóðir í þágu síldarútvegsins.

146. mál
[16:04]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég setti þann fyrirvara að ég myndi ekki allar tölur, og ég man ekki alveg kostnaðinn við þessa aðgerð. Einnig var rætt um að hugsanlega væri hægt að rjúfa veginn og búa þannig til hringrás í firðinum. Það kostar líka mikla fjármuni, þá þarf að lagfæra gamla veginn og tvær gamlar brýr og það er kostnaður upp á 200–300 milljónir.

Þessi skilma sem menn töluðu um og margir hafa mikinn áhuga á, ég held að áætlað sé að hún kosti um 60–80 milljónir. Reyndar yrði verulegur kostnaður við þessar loftbólur vegna þess að verulegan útbúnað þyrfti og rekstrarkostnaður kæmi í kjölfarið. Sumir hafa bent á að ef þarna kæmi 200 þús. tonna síldartorfa með 220 háhyrninga eða hvali á eftir sér þá væri ekkert víst að einhverjar loftbólur næðu að stoppa slíkt.

Við erum í ákveðnum vanda. Verkefnið er að kljást við náttúruna í þessu tilviki, sem ekki er auðvelt. Við erum með sérfræðinga og samráðshóp sem stendur ötullega að þessu, og eins og ég nefndi kemur sveitarfélagið sem sterkur aðili þarna inn, það ber líka mikla ábyrgð gagnvart ákveðnum þáttum. Við ráðherrarnir, innanríkisráðherra og umhverfis- og sjávarútvegsráðherra, erum líka tilbúnir að gera það sem við getum til að forðast tjónið með öllum tiltækum ráðum. Ef það síðan verður — því að það gerist auðvitað í sviphendingu að súrefnið klárast — verðum við að vera tilbúin með viðbragðsáætlun og hún er til. Það þarf að vísu að lagfæra hana en það verður að vera hægt að bregðast skjótt við svo að menn þurfi ekki að horfa á þetta í dagavís.