143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

beiðni þingmanna um upplýsingar.

[15:03]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil gera athugasemdir við bréf hæstv. forseta sem er svar við kröfu þriggja hv. þingmanna í fjárlaganefnd um að hæstv. forseti beiti sér fyrir því að umbeðnar upplýsingar um tillögur hagræðingarnefndar hæstv. ríkisstjórnar, gögn þau sem undirbyggja tillögurnar og fundargerðir, berist fjárlaganefnd eins og 51. gr. þingskapalaga segir til um.

Í bréfi hæstv. forseta kemur fram að hann telur að það sé ekki hlutverk hæstv. forseta að ganga eftir þessu eða sjá til þess að stjórnvöld vanræki ekki mögulega skyldur sínar samkvæmt þingskapalögum. Það skiptir mjög miklu máli fyrir hv. þingmenn að vita hvert leita skuli ef stjórnvöld vanrækja skyldur sínar og því vil ég spyrja hæstv. forseta: Hver fer með þetta hlutverk ef það er ekki hæstv. forseti Alþingis?