143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

beiðni þingmanna um upplýsingar.

[15:13]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að ekki sé alveg hægt að jafna því saman að þingmenn biðji um gögn og gögnum sé hent inn í hólfið þeirra hálftíma áður en þingfundur hefst eða að þeir fái gögnin þegar beðið er um. Ég verð fyrir vonbrigðum með hv. formann fjárlaganefndar sem hefur sýnt sig í því að vilja að upplýsingaflæðið sé sem mest og allir starfi saman af einurð og sanngirni, að segja þetta, að hún haldi bara að málið sé fallið um sjálft sig.

Þetta kom reyndar fram í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins líka að málið væri fallið um sjálft sig vegna þess að gera ætti gögnin opinber kl. 3. En kl. 3 áttu nefndarmenn að vera hér á þingfundi.

Ég legg það eindregið til við hv. formann fjárlaganefndar að hún athugi sinn gang í framtíðinni með mál af þessu tagi.