143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

beiðni þingmanna um upplýsingar.

[15:14]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Sú atburðarás sem hér er komin af stað er dálítið furðuleg og kallar eiginlega á útskýringar af hálfu þeirra sem halda á þessu máli. Eru þessar upplýsingar komnar í hólf þingmanna eða hafa þær verið sendar þingmönnum? Gæti hæstv. forseti útskýrt fyrir okkur hvar okkur er ætlað að nálgast þær? Er það bara á heimasíðu forsætisráðuneytisins? Ef svo er, hvers vegna var þá haldin sérstök kynning á þessum tillögum í stjórnarflokkunum fyrir þennan fund hér? Það er klárlega aðstöðumunur á milli þingmanna um þær tillögur sem menn eru að ræða. Var það eitthvert sáluhjálparatriði fyrir stjórnarþingmenn að fá þetta hálftíma á undan öðrum þingmönnum?

Og gerðu formaður og varaformenn hv. fjárlaganefndar sér ekki grein fyrir því að það væri vilji innan nefndarinnar að fá að sjá þessar tillögur? Eru þetta ekki sömu einstaklingarnir og sitja í hinum svokallaða hagræðingarhópi? Hvaða skrípaleikur er hér í gangi?