143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

beiðni þingmanna um upplýsingar.

[15:17]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér finnst það umhugsunarefni ef það er mat forseta að hin almennu ákvæði þingskapalaga um að forseta beri að sjá um starfsemi Alþingis sé í samræmi við stjórnarskrá og lög nægi ekki í tilviki sem þessu til að forseti geti beitt sér, ef það virðist sem ekki sé farið að ákvæðum þingskapa varðandi rétt tiltekins hluta þingnefndar um að fá upplýsingar. (Gripið fram í: Icesave.) Ef svo er þarf forseti að láta athuga hvort á að gera breytingar á þingsköpum.

Framkoma forsætisráðuneytisins í þessu máli er mjög sérstök. Fyrst er neitað beiðni þingflokks á grundvelli upplýsingalaga og síðan er beiðni frá tilskildum hluta þingnefndar, sjálfri fjárlaganefnd, um gögn sem augljóslega varða vinnu nefndarinnar ekki svarað af hálfu forsætisráðuneytisins. Frestur til þess að afhenda gögnin rennur út, síðan er hluti þeirra settur á heimasíðu ráðuneytisins, alls ekki allt sem nefndin bað um. Það jafngildir ekki því að erindinu sé svarað og við því orðið. Það er eftir. Hæstv. forsætisráðherra á enn eftir (Gripið fram í: Það er …) að skila því til (Forseti hringir.) fjárlaganefndar með formlegum hætti. (Gripið fram í: Það er rangt.)