143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

makrílveiðar.

[15:23]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra verður að fyrirgefa mér þó að ég spyrji hann beinlínis um meginlínurnar í auðlindastefnu ríkisstjórnarinnar og hvort ríkisstjórnin hafi ekki metnað til þess að reyna að marka eðlilega umgjörð, hafa alvöruumgjörð um þessi mál og nýta sér þær aðstæður sem eru uppi þegar um er að ræða nýja tegund.

Það er ekki eðlilegt að horfa á þetta í samhengi við aðrar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu vegna þess (Gripið fram í.) að það er algjörlega ástæðulaust að úthluta núna til þess eins að fara að klípa af mönnum í breytingum sem fara að eiga sér stað við heildarendurskoðun kerfisins á næstu mánuðum eða missirum.

Það er auðvitað eðlilegt að ríkið reyni að hafa sem mestar tekjur af þessari úthlutun. Það er sérkennilegt með þessa ríkisstjórn að hún virðist ekki hafa kraft til þess að standa í ístaðinu og reyna að afla alvörutekna eins og best er hægt að gera (Forseti hringir.) á sem sanngjarnastan hátt þegar (Forseti hringir.) sjávarútvegurinn er annars vegar.