143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

skuldamál heimilanna.

[15:27]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Þær spurningar sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir bar upp eru einmitt spurningarnar sem sérfræðingahópurinn er að vinna með og mun skila niðurstöðum um núna í þessum mánuði.

Auk þess var spurt hvort tillögurnar eða það sem hópurinn er að vinna með þessa stundina hefði verið kynnt í ríkisstjórn. Hópurinn kynnir reglulega gang mála fyrir ráðherranefnd um skuldamál, ráðherranefnd um úrlausnir í skuldamálum heimilanna. Síðasti fundur nefndarinnar fór fram í síðustu viku þar sem formaður nefndarinnar kynnti stöðu vinnunnar og þá hluti sem enn eru til skoðunar. Eitt af því sem þar er til skoðunar núna er í fyrsta lagi hvort rétt sé að setja ákveðið þak á það hversu mikið hvert og eitt heimili geti fengið í niðurfærslu og hvað sé þá rétt að miða við í þeim efnum. Það eru ýmis rök sem menn skoða þar til að meta hvað sé sanngjarnast og eðlilegast í því. Það verður ásamt öðru kynnt þegar niðurstaða hópsins liggur fyrir.