143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

skuldamál heimilanna.

[15:29]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin. Það liggur þá fyrir, sem mér fannst ekki koma nógu skýrt fram í umræðunni á fimmtudag, að þessum spurningum hefur einfaldlega ekki enn verið svarað í vinnunni sem stendur yfir. Mér finnst mjög mikilvægt að við séum upplýst um það hér á Alþingi Íslendinga að þessar spurningar séu til umræðu, að það séu ekki komin svör við þeim.

Mig langar að inna hæstv. forsætisráðherra eftir tvennu í framhaldinu. Er hann bjartsýnn á að þessar tímasetningar standist, þ.e. að vinnu við tillögurnar verði lokið fyrir lok nóvember? Og í ljósi þess að umfangið liggur ekki fyrir — stundum hefur verið rætt um þetta umfang sem allt upp í 300 milljarða spurningu — hvort ætlunin er að kynna það að einhverju leyti fyrir fulltrúum allra flokka á Alþingi eða hvort þetta verður bara sett á heimasíðuna klukkan þrjú.