143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

aukin þátttaka fatlaðs fólks í starfi að eigin málefnum.

[15:31]
Horfa

Freyja Haraldsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil beina fyrirspurn minni til hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra en vil byrja á að skýra mál mitt.

Samtök fatlaðs fólks um allan heim hafa haft kjörorðin Ekkert um okkur án okkar að leiðarljósi í mannréttindabaráttu sinni fyrir sjálfstæði, frelsi, aðgengi, virkri þátttöku og jöfnum tækifærum á öllum sviðum í áratugi. Hér er í raun um að ræða kröfu um að fötluðu fólki séu skapaðar aðstæður til að tala fyrir sig sjálft og það sé álitið sérfræðingar í eigin lífi. Einnig er um að ræða ákveðið andóf gagnvart því að annað fólk tali fyrir fatlað fólk og taki ákvarðanir án þess að þekkja raunverulega þær aðstæður sem fatlað fólk býr við sem hópur sem er undirskipaður, útilokaður og aðgreindur í samfélögum sem eru hönnuð af ófötluðu fólki fyrir ófatlað fólk. Þessar áherslur hafa verið ríkjandi í mannréttindabaráttu annarra valdaminni hópa.

Í sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks kemur fram að við undirbúning löggjafar og stefnu er varðar réttarstöðu fatlaðs fólks skuli haft náið samráð við það og tryggja þátttöku þess í allri ákvarðanatöku er varðar líf þess. Jafnframt kemur þessi stefna ítrekað fram í framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til 2014.

Reynslan hér á landi sýnir þó að algengt er að fatlað fólk komi eingöngu að stefnumótun og lagasetningu á lokastigum, það sé í miklum minni hluta á mælendaskrá á ráðstefnum um málefni þess og sitji sjaldan eða aldrei í nefndum og ráðum um stefnumótun og framkvæmd er varðar líf þess bæði á sveitarstjórnarstiginu og innan ráðuneyta.

Fulltrúar heildarsamtaka fatlaðs fólks hafa skilgreinda samráðsstöðu í lögum um málefni fatlaðs fólks, sem er vel, en þeim samtökum er hins vegar oft stýrt af ófötluðu fólki sem sendir ítrekað ófatlaða fulltrúa að borðinu.

Ég vil því spyrja hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hvernig hún sér fyrir sér að bæta megi réttarstöðu fatlaðs fólks að þessu leyti og hvernig megi með markvissum aðgerðum auka náið samráð við fatlað fólk sjálft og virka þátttöku þess að aðkomu og allri ákvarðanatöku frá upphafi ferlis til enda á öllum stigum stjórnsýslunnar í málum sem það varðar.