143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

aukin þátttaka fatlaðs fólks í starfi að eigin málefnum.

[15:34]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Í framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks er einmitt það sem hv. þm. Freyja Haraldsdóttir nefndi eins og rauður þráður í gegnum öll þau verkefni sem er verið að leggja þar til. Lögð er mikil áhersla á valdeflingu og notendasamráð og hugað er að því hvernig hægt sé að bæta þar úr. Alveg eins og hv. þingmaður fór hér í gegnum, þegar við horfum til baka má svo sannarlega segja að ekki hafi verið staðið nægilega vel að þessu.

Það er hins vegar mjög mikilvægt að hafa í huga að fötlun, eins og hv. þingmaður þekkir, getur verið með ýmsum hætti. Um er að ræða mjög fjölbreyttan hóp og því er mikilvægt að huga að því þegar við skipuleggjum verkefni, hugum að starfshópum, nefndum og þingum og öðru sem snertir þetta.

Ég átti til dæmis nýlega fund með fulltrúa Félags heyrnarlausra. Það sem kom fram í máli þess fulltrúa var megináhersla á túlkaþjónustu, að hún væri í raun lykilatriði þegar kæmi að því að tryggja að félagsmenn gætu tekið sem virkastan þátt og talað og tjáð sig sjálfir.

Þegar kemur að framkvæmdaáætluninni verð ég að viðurkenna að ég mundi mjög gjarnan vilja hafa meiri fjármuni til að geta stutt við ýmis verkefni. Eitt af þeim verkefnum sem ég hefði mjög mikinn áhuga á að halda áfram með er sendiherraverkefnið sem hefur snúið að sáttmála Sameinuðu þjóðanna varðandi réttindi fatlaðs fólks, kynningu á því hringinn í kringum landið, sem hefur verið til algjörrar fyrirmyndar að mínu mati.