143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

aukin þátttaka fatlaðs fólks í starfi að eigin málefnum.

[15:36]
Horfa

Freyja Haraldsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra fyrir viðbrögðin. Það gleður mig sérstaklega að heyra að hæstv. ráðherra láti sig miklu varða að raddir allra hópanna heyrist. Við erum margbreytilega ólík sem betur fer og því er mikilvægt að raddir okkar allra heyrist. Sumir eiga erfiðara með að koma skoðunum sínum á framfæri og þurfa við það mikla aðstoð og sérstaklega er kveðið á um það í 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að fólk skuli þá fá aðstoð við að tjá vilja sinn.

Mig langar bara að benda á, af því að fram kom að vilji væri til að hafa meiri fjármuni í þessu, að ég er hjartanlega sammála því en vil um leið segja að það eru ótal leiðir sem má fara og þær kosta ekki endilega peninga. Það að skipa fatlað fólk, og þá meina ég ólíka hópa fatlaðs fólks, í nefndir í málum sem það varðar krefst ekki endilega mikilla fjármuna.

Að lokum vil ég benda á að þetta er í raun ekkert nýnæmi af því að þetta birtist í mannréttindabaráttu almennt. Í jafnréttisbaráttu kynjanna birtist þetta til dæmis sterkt í áherslu á kynjaða hagstjórn í fjárlagagerð þar sem markmiðið er að endurskipuleggja hana þannig að kynjasjónarmiðinu sé fléttað inn í alla ákvarðanatöku og stefnumótun og stuðli þannig að auknu jafnrétti í samfélaginu. Þannig þurfum við líka fötlunarsjónarmiðið inn.