143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

aukin þátttaka fatlaðs fólks í starfi að eigin málefnum.

[15:37]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn á ný fyrir að þetta málefni skuli vera tekið hér upp. Það eru nokkur atriði sem ég mundi vilja fá að nefna til viðbótar við það sem ég sagði áðan. Ég hef verið sérstaklega spennt fyrir verkefnum sem snúa að aukinni atvinnuþátttöku fatlaðs fólks. Ein af mínum grunnhugsjónum sem stjórnmálamanns er mikilvægi vinnu fyrir okkur sem einstaklinga, að við fáum að vera sem virkastir þátttakendur í samfélaginu. Þar eru verkefni sem væri mjög áhugavert að vinna og ég hef mikinn áhuga á að horfa til Vinnumálastofnunar og Atvinnuleysistryggingasjóðs í því sambandi, hvernig hægt sé að framfylgja þeim verkefnum.

Ég hef líka nefnt við aðila vinnumarkaðarins að þeir hugi enn frekar að því hvernig hægt sé að styðja fatlaða einstaklinga til þátttöku á vinnumarkaði.

Það eru tvö verkefni sem ég mundi vilja nefna hér að auki, annars vegar verkefni sem snýr að rannsóknum sem hafa bent til þess að fatlað fólk sé í meiri hættu á að verða fyrir ofbeldi. Það er mjög mikilvægt að huga að því. Hins vegar er ég að setja af stað verkefni sem snýr sérstaklega að velferðartækni. Ég er mjög áhugasöm (Forseti hringir.) um að ræða hér sérstaklega þá möguleika sem við sjáum í nýsköpun og þróun með nýrri tækni í þjónustu, ekki bara við fatlaða einstaklinga heldur líka aldraða (Forseti hringir.) og í velferðarþjónustu almennt.