143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

[15:47]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið, m.a. á mjög öflugu umhverfisþingi á föstudaginn, hef ég lýst því yfir að það sé markmið mitt sem umhverfis- og auðlindaráðherra að ganga frá og klára undirritun að friðun Þjórsárvera og þar með stækkun friðlandsins þar.

Hins vegar hafa margir komið fram í fjölmiðlum og verið með túlkanir út og suður á því hvað það þýði að friðlýsa Þjórsárver, hvort það hafi áhrif á einhverja virkjunarkosti sem hugsanlega koma til sögunnar í framtíðinni, í framtíðarrammaáætlunum. Ég hef bent á að þetta sé tvenns lags að eðli, annars vegar sé hægt að ganga frá friðlýsingu Þjórsárvera og innan þess svæðis finnst mér mikilvægt að þar verði ekki neinn hugsanlegur virkjunarkostur. Ég tel mjög mikilvægt að mörkin verði skýr hvað það varðar. Á sama hátt kemur það ekki í veg fyrir að einhverjir virkjunarkostir verði utan þess friðlands. Eitt af því sem er síðan til skoðunar í ráðuneytinu er að mismunandi lagagrunnur stendur á bak við friðlýsingar annars vegar samkvæmt svokallaðri rammaáætlun um vernd og nýtingu orkukosta og hins vegar um friðlýsingar í samræmi við náttúruverndarlög. Þar er gjarnan talað um heildir á meðan í rammaáætlun er talað um virkjunarkosti sem síðan hafa ekki verið skilgreindir.

Þetta er vinna sem við þurfum að skilgreina betur. Ég hef lagt á það mikla áherslu að það að taka ekki á einhverjum virkjunarkostum sem verða teknir til umfjöllunar með faglegum hætti í rammaáætlun framtíðarinnar útilokar ekki að við getum gengið frá friðlýsingum Þjórsárvera hér og nú. Að því er unnið mjög hörðum höndum í ráðuneytinu og í stofnunum þess. Eins og ég hef áður sagt vonast ég til að það geti gengið sem best.