143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

[15:49]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Í skriflegu svari umhverfisráðherra hér á Alþingi segir — og ég ítreka það sem ég sagði áðan, það segir þar, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að friðlýsing þessa virkjunarkosts“ — þ.e. Norðlingaölduveitu — „verði hluti af þessu stóra friðlýsta svæði á miðhálendinu.“

Virðulegur forseti. Þetta er ekkert hægt að misskilja. Það stendur ekki til samkvæmt svarinu hér á Alþingi að Norðlingaölduveita — engin og ekki í neinu formi — verði innan þessa friðlýsta svæðis. Það er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi. En það mátti skilja ráðherrann öðruvísi í fjölmiðlum.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra eina ferðina enn eða nýrrar spurningar: Í hvaða flokki rammaáætlunar er virkjunarkosturinn Norðlingaölduveita og hvað segir í lögunum um rammaáætlun hvernig fara eigi með slíka kosti?