143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

áhrif Íslands á ákvarðanir á vettvangi Evrópusamstarfs.

123. mál
[15:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Virðulegur forseti. Síðastliðið vor samþykkti Alþingi sérstaka þingsályktun um aukin áhrif Íslands á ákvarðanir á vettvangi Evrópusamstarfs sem hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að efla beri þátttöku stjórnmálamanna og embættismanna í hagsmunagæslu tengdri Evrópusamstarfi með það að markmiði að auka áhrif Íslands á ákvarðanir á vettvangi Evrópusamstarfs.“

Þessi þingsályktun var upphaflega flutt sem tillaga til þingsályktunar frá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni og fleirum, leyfi ég mér að segja til að spara tíma, því að þeir voru margir, en núverandi hæstv. utanríkisráðherra var í þeim hópi.

Utanríkismálanefnd fjallaði um þessa tillögu á síðasta kjörtímabili og í þeirri umfjöllun er meðal annars vísað til þess að með því samstarfi sem nú fer fram á grundvelli EES-samningsins hafi Íslendingar takmörkuð áhrif og lúti því að taka við tilskipunum og ákvörðunum frá Evrópusambandinu án þess að hafa lagt þar mikið til mála. Þar er sérstaklega vísað til vinnu nefndar allra þingflokka sem starfaði og skilaði áliti árið 2007. Sú nefnd lagði fram ítarlegar tillögur sem fela í sér að Ísland leggi áherslu á aukna þátttöku stjórnmálamanna og embættismanna í hagsmunagæslu tengdri Evrópusamstarfi með það að markmiði að auka áhrif Íslands á mótun og töku ákvarðana á þessum vettvangi, eins og segir í niðurstöðum þeirrar nefndar.

Í umfjöllun utanríkismálanefndar um þetta mál er undirstrikað að ýmsum tillögum Evrópunefndar og utanríkismálanefndar, sem hafa komið fram í skýrslum sem um þetta mál hafa verið unnar, hafi þegar verið hrundið í framkvæmd og þær hafi orðið til bóta. Utanríkismálanefnd lagði hins vegar áherslu á að íslensk stjórnvöld þyrftu á hverjum tíma að leita allra mögulegra leiða til að auka áhrif Íslands á vettvangi Evrópusamstarfs og jafnframt að tryggja fjárveitingu til þess starfs á fjárlögum.

Mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir því — vegna þess að ég hef tekið eftir því að í frumvarpi til fjárlaga er gert ráð fyrir viðbótarfjárveitingu til utanríkisráðuneytisins til að mæta meðal annars þeim áherslum sem koma fram í þessari þingsályktun en ég hef ekki orðið var við að neitt sé gert ráð fyrir því að mæta þeim þætti málsins sem lýtur að starfi Alþingis og stjórnmálamanna hér á vettvangi Alþingis sem er annar og jafn gildur hluti þessarar þingsályktunar.

Ég hef þess vegna lagt fyrir hæstv. ráðherra svohljóðandi fyrirspurn: Hvernig hyggst ráðherra fylgja eftir þingsályktun nr. 1541 um að efla beri þátttöku stjórnmálamanna og embættismanna í hagsmunagæslu tengdri Evrópusamstarfi með það að markmiði að auka áhrif Íslands á ákvarðanir á vettvangi Evrópusamstarfs?