143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

áhrif Íslands á ákvarðanir á vettvangi Evrópusamstarfs.

123. mál
[15:55]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Eins og þingmaðurinn nefndi réttilega var ég meðflutningsmaður þeirrar tillögu sem hann vísar til. Samþykkt hennar hér á síðasta þingi ber glöggt vitni um að þegar þingmenn taka sig saman geta þeir fengið ýmsu áorkað. Ályktunin var samþykkt af ríflegum meiri hluta þingmanna mótatkvæðalaust sem segir okkur töluvert mikið.

Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að sami andi svífi yfir vötnum á Alþingi í dag. Ég geng út frá því að góður samhljómur sé milli okkar um þau markmið sem í þessari þingsályktun eru.

Í greinargerð með þeirri tillögu var gerð ítarleg grein fyrir ýmsum hugmyndum og tillögum sem lagðar höfðu verið fram áður um hvernig best mætti haga hagsmunagæslu Íslands á vettvangi Evrópusamstarfs. Ekki síst kom það fram í skýrslu Evrópunefndar frá 2007 og í skýrslu utanríkismálanefndar Alþingis frá haustinu 2008.

Frá síðasta kjörtímabili hefur það breyst að aðildarviðræður eru ekki lengur í gangi og því getum við beint kröftum okkar, sem við eigum í okkar ágætu stjórnsýslu, að því að styrkja framkvæmdina við rekstur EES-samningsins, þ.e. efla hagsmunagæsluna. Þar með held ég að fyrsta skrefið sé stigið er varðar þessa þingsályktunartillögu.

Í annan stað er að finna í frumvarpi til fjárlaga tillögu um sérstaka fjárveitingu, eins og hv. þingmaður kom réttilega inn á, til að styrkja þetta Evrópusamstarf. Þar er sérstaklega vísað í umrædda þingsályktunartillögu.

Við skoðum nú hvernig þetta fjármagn megi nýta sem best. Einn kostur í því er til dæmis að styrkja viðveru sérfræðinga okkar í Brussel og með því efla aðkomu okkar að mótun EES-löggjafarinnar. Þessi nálgun er það sem einna einfaldast er að nálgast fyrsta kastið. Síðan munum við fara yfir það með hverju og einu ráðuneyti hvernig hagað er fundarsókn héðan, að heiman, og hvernig er með öðrum hætti hægt að fylgjast með löggjöf í mótun. En á þessum stigum er mikilvægast, og einfaldast í raun fyrir okkur, að koma að málum að koma áhyggjum okkar eða athugasemdum á framfæri.

Í fyrirspurn sinni hreyfir þingmaðurinn einnig við máli sem stendur okkur nærri, þ.e. þátttöku stjórnmálamanna í hagsmunagæslu gagnvart Evrópusambandinu. Það er kunnara en frá þurfi að segja að völd Evrópuþingsins hafa aukist verulega á umliðnum árum. Við þeirri þróun hafa stjórnvöld, í gegnum sendiráð okkar í Brussel, leitast við að bregðast á undanförnum missirum með því að fylgjast náið með þróun helstu hagsmunamála Íslands í meðförum þingsins með það markmið að hafa áhrif á lagasetningu sem fyrst í ferlinu.

Eins og við vitum hefur töluvert verið skorið niður í utanríkisþjónustunni undanfarin ár og þar á meðal þarna. Því hefur starfsmönnum þarna úti, sem hafa haft það á sinni könnu að geta fylgst með þessu, fækkað.

Þá hefur Alþingi, með aðkomu sinni að sameiginlegri þingmannanefnd EES, sinnt þessum þætti myndarlega um árabil og nýtt til þess allar færar leiðir. Á síðustu árum hefur með reglulegu millibili verið hreyft við þeirri tillögu að Alþingi efli hagsmunagæslu sína gagnvart Evrópuþinginu með fastri eða reglulegri viðveru í því augnamiði að standa vörð um þau hagsmunamál á vettvangi EES sem koma til kasta þingsins. Ég ítreka þá skoðun að ég tel mjög mikilvægt að löggjafinn hugi að þessu og ég þykist vita að hér eru margir mér sammála um það.

Að lokum vil ég láta þess getið — sem part af þessari gagnlegu umræðu — að á fundi mínum með nýjum Evrópumálaráðherra Noregs fyrir stuttu ræddum við það og urðum ásáttir um að reyna að efla samstarf Íslands og Noregs í tengslum við EES. Þar ræddum við að sjálfsögðu upplýsingagjöf, fundarsóknir og ýmislegt þess háttar. Munum við á næstu vikum og mánuðum ræða frekar hvernig því verður best fyrir komið. Bind ég vonir við að með því megi enn frekar styrkja hagsmunagæslu okkar í Evrópusamstarfinu og þannig nýta kraftana betur innan EFTA-ríkjanna.

Ég ítreka þakkir mínar til hv. þingmanns fyrir þessa fyrirspurn. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við reynum að hafa samhljóm í því hvernig við stöndum að þessum málum og hvernig við styrkjum aðkomu okkar að þessu Evrópusamstarfi, ekki síst EES-samningnum sem er okkar aðgöngumiði inn á þennan markað, okkar helsta markað sem er í Evrópu.