143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

áhrif Íslands á ákvarðanir á vettvangi Evrópusamstarfs.

123. mál
[16:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt fyrir okkur að hafa í huga að þegar við erum að fjalla um eða velta fyrir okkur framtíð samstarfs líkt og samstarfsins sem við eigum í gegnum EES-samninginn þá getur það skipt töluvert miklu máli, bæði fjárhagslega og efnahagslega, að okkur takist vel upp þar. Þar af leiðandi getur það vel fallið að hugmyndum um betri árangur í ríkisrekstri og slíkt að auknir fjármunir séu settir í hagsmunagæslu sem hugsanlega getur svo sparað okkur óþarfaútgjöld á síðari stigum.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að það er mikilvægt að það sé ekki bara framkvæmdarvaldið sem sé með öfluga starfsstöð eða öfluga starfsmenn í Brussel til að fylgjast með málum þar heldur þarf löggjafinn líka að gera það. Við þekkjum það að sveitarfélögin í landinu hafa verið með skrifstofu þar úti til að gæta hagsmuna sinna. Ef ég man rétt þá var, alla vega á einhverjum tímapunkti og er kannski enn, atvinnulífið með fulltrúa þar. Því er mjög rökrétt og eðlilegt að styðja það að Alþingi leiti leiða til þess að fá fjármagn til að halda þarna úti hagsmunagæslu líka.

Það er líka áhugavert, sem kom fram hér hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, að þingflokkarnir leiti leiða til að styrkja samstarf sitt við kollega okkar úti í Evrópu. Það getur skipt máli því að alltaf er þetta nú þannig að samskipti milli manna, samskipti milli þingmanna, milli ráðherra, skipta miklu máli þegar upp koma mál sem þarf að leysa eða þegar þarf að hafa áhrif á einstaka hluti.

Ég held að við séum í sjálfu sér öll í sama báti þegar að þessu kemur. Ég vonast að sjálfsögðu til þess að Alþingi samþykki á endanum að setja aukna fjármuni í þessa hagsmunagæslu sem ráðuneytið hefur óskað eftir og að sjálfsögðu verði líka horft til þess að Alþingi sjálft geti styrkt veru sína þarna úti.