143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

Dettifossvegur.

99. mál
[16:05]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra, ráðherra samgöngumála, um Dettifossveg. Aðeins um aðdragandann að því þá vitum við að búið er að vinna fyrri hluta vegarins, sem var unninn á árunum 2009–2011, og var því verki eiginlega öllu lokið, þ.e. fyrri hlutanum sem var lagning á nýjum Dettifossvegi vestan Jökulsár á Fjöllum frá hringvegi að Austari-Brekku norður að Dettifossi ásamt tengingum að Dettifossi og Hafragilsfossi og gerð bílastæða. Alls voru þetta um 25,2 kílómetrar sem voru boðnir út í einum áfanga í maí 2008, rétt áður en hið mikla hrun skall á, en vegna eignarnáms var ekki skrifað undir verksamning fyrr en í september og framkvæmdir hófust í október það ár. Á árinu 2009 var lokið að mestu við að leggja veginn frá hringvegi að tengingu að Dettifossi. Því lauk eins og áður sagði árið 2011.

Það er rétt að hafa í huga, virðulegi forseti, að þetta er aðeins fyrri hlutinn. Seinni hlutinn er eftir og það var alltaf ætlunin að sá kafli yrði tekinn strax í framhaldinu. Því seinkaði að vísu aðeins en efni fyrirspurnar minnar er að spyrja út í hvers vegna ekki sé búið að bjóða út framkvæmdir við seinni hluta Dettifossvegar og í öðru lagi hvenær fyrirhugað sé að bjóða verkið út.

Á samgönguáætlun sem var samþykkt 19. júní 2012 er gert ráð fyrir seinni hluta Dettifossvegar sem er um 30 kílómetrar í vegflokki C8 og er áætlaður kostnaður 1.800 millj. kr. Árið 2013, þ.e. í ár, eru á samgönguáætlun 600 millj. kr. til að vinna við seinni hluta Dettifossvegar og á næsta ári, þ.e. 2014, eru aðrar 600 millj. kr. Í stuttu samgönguáætluninni er sett inn 2015 plús eins og það heitir í áætluninni, þ.e. að fjárveitingar þurfi upp í 1.800 millj. kr.

Þessi seinkun á útboði er mjög bagaleg fyrir ferðaþjónustuna í Kelduhverfi. Það er álit þjóðgarðsvarðar í Ásbyrgi og Jökulsárgljúfrum, Hjörleifs Finnssonar, að Kelduhverfi og Öxarfjörður verði þarna úr leið og það sé jafnvel verra að fá bara hálfan Dettifossveg en allan. Ég er ekki sammála því. Eins og ég segi og hef rakið hér þá var þessi kafli boðinn út 2008 en fyrirspurn mín er sem sagt um seinni hlutann á þeim framkvæmdum sem ég hef sett fram á þingskjali.