143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

löggæsla í Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð.

130. mál
[16:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Þingmenn eru nýlega búnir að vera í svokallaðri kjördæmaviku þar sem þingmenn allra kjördæma hafa farið um kjördæmi sín og hitt sveitarstjórnarmenn og aðra aðila sem vilja ræða við þingmenn og bera upp erindi. Það var svo hjá okkur í Norðausturkjördæmi að við tókum það eins og við höfum gert áður. Við fórum um allt kjördæmið frá Djúpavogi og enduðum á Akureyri með samtölum og fundum við allar sveitarstjórnir á svæðinu sem komu til okkar.

Mörg mál voru færð í tal við okkur þingmenn sem snúa að samskiptum ríkis og sveitarfélaga eða ríkisrekstri, rétt eins og fyrirspurn mín hér og nú fjallar um. Á mörgum stöðum var talað um að fækkun lögreglumanna væri mjög alvarleg. Ég hef því kosið að leggja fram fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra um löggæslu í Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð og hún er einfaldlega: Eru uppi áform um að fjölga löggæslumönnum í Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð?

Tilefni fyrirspurnarinnar var mjög afdráttarlaus kafli í erindi bæjarstjórnar Fjallabyggðar til okkar þingmanna. Þar sagði meðal annars, með leyfi forseta:

„Staða löggæslumanna á Tröllaskaga er óviðunandi að mati bæjarstjórnar Fjallabyggðar og stefnir öryggi íbúa í hættu. Einn lögregluþjónn er á vakt og sinnir löggæslu í Siglufirði, Ólafsfirði og Dalvík og er það að mati bæjarstjórnar ófullnægjandi.“

Svo koma fram áherslur bæjarstjórnar og er óskað er eftir að tveir lögreglumenn séu á vakt í þessum bæjarfélögum.

Virðulegi forseti. Hæstv. innanríkisráðherra hefur lýst því og getið um það sem stendur í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar um að tryggja öryggi almennings og gæta þess að lögreglan geti tekist á við mikilvægt þjónustuhlutverk sitt. Því er ég innilega sammála. Um það er enginn ágreiningur. Við höfum á liðnum árum þurft að skera mikið niður, þar með talið til löggæslumála. Því fagna ég mjög þeirri áherslu hæstv. innanríkisráðherra sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu um 500 millj. kr. framlag til eflingar löggæslu.

Það hefur líka komið fram að hæstv. ráðherra hefur skipað þverpólitíska þingnefnd sem fær það hlutverk að forgangsraða fyrrnefndu fjármagni.

Þrátt fyrir miklar og góðar samgöngubætur á utanverðum Tröllaskaga með Héðinsfjarðargöngum er samt sem áður erfiður kafli sem getur verið mjög erfiður á veturna, þ.e. Ólafsfjarðarmúli, og þess vegna legg ég fyrirspurn mína fram hér. Ef við segjum að þessi eini lögreglumaðurinn sé á vakt á Dalvík getur verið mikill farartálmi þar á milli, þ.e. um ófæran Múlaveg sem oft lokast, og (Forseti hringir.) því er spurningin lögð fram hvað varðar þessi tvö byggðarlög.