143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

löggæsla í Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð.

130. mál
[16:24]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrt, stutt og gott svar og hv. þingmanni fyrir að taka þátt í þessari umræðu.

Ég fagna alveg sérstaklega því verklagi sem hæstv. ráðherra setur á um að fá til þess þverpólitíska þingmannanefnd til aðstoðar við ráðuneytið við að meta þörfina við að deila út þessum 500 milljónum, sem ég fagna líka að verði mest notaðar til að fjölga lögreglumönnum í þessum fyrsta áfanga. Ég er mjög sáttur við þetta svar og mjög sáttur við þetta vinnulag vegna þess, eins og fram hefur komið, að menn voru oft með óbragð í munni þegar þeir studdu ýmsar þær niðurskurðartillögur sem þurfti að ráðast í á síðasta kjörtímabili. Eins og ég sagði hér áðan var eitt af því framlag til lögreglunnar til öryggiseftirlits og þeirra miklu starfa sem þeir vinna. Það er komið að því að skila til baka. Þess vegna fagna ég mjög þessari áherslu og þeirri stefnu sem hæstv. ráðherra hefur.

Virðulegi forseti. Það er rétt forgangsröðun að mínu mati, eins og hér hefur komið fram, að fjölga lögreglumönnum, að stíga til baka og skila til baka. Þess vegna segi ég: Ég þakka ráðherra fyrir stutta svarið sem var já við fjölgun lögreglumanna í Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð. Það var vel mælt.