143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

innheimta dómsekta.

151. mál
[16:36]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra greinargóð svör. Það er alveg rétt, sem bent er á, að samfélagsþjónusta er ágætt úrræði — ég hefði kannski átt að hafa spurninguna aðeins skýrari. En eitt af því sem kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar er að í raun er enginn munur á upphæð sektar. Sá sem skuldar 80 milljónir getur fullnustað dóminn með samfélagsþjónustu og það getur aldrei verið eðlilegt. En með lægri sekt, þá mætti kannski horfa í gegnum fingur sér með það. Það er líka rétt að skortur á fangelsisrými hefur verið vandamál þannig að nýtt fangelsi á Hólmsheiði bætir kannski þar úr.

Ég ætlaði líka að spyrja um tímasetningar en það kom fram í svari hæstv. ráðherra. Ég mun þá bara bíða eftir því að frumvarpið verði lagt fram og ef mig fer að lengja eftir svörum kalla ég aftur eftir umræðu við hæstv. ráðherra.