143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

Saurbær í Eyjafirði.

131. mál
[16:47]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svarið sem gerir málið eilítið flóknara en það var fyrir. Nú blandast inn í þetta forsetaúrskurður nr. 69/2013 og jafnvel 71/2013 frá 24. maí sl. ef ég hef tekið rétt eftir í ræðu hæstv. ráðherra.

Hæstv. ráðherra lýsti því hvernig þessu væri farið og búið væri að breyta um þannig að einhver ákveðin umsýsla er komin í forsætisráðuneytið en umsjón með sölunni til fjármála- og efnahagsráðherra.

Virðulegi forseti. Ég verð því að fyrirgefa hæstv. ráðherra, sveitunga mínum, að hafa ekki komið með skýrt og skorinort stutt svar um að þetta væri allt saman að fara að gerast, eins og ég nefndi hér varðandi innanríkisráðherra í sambandi við þær tvær fyrirspurnir sem ég var með áðan. En ég verð þá að halda áfram með málið og greinilega að beina fyrirspurn til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, og jafnvel forsætisráðherra.

Ég hvet til þess að hæstv. ráðherra fylgi málinu eftir um leið og hann gerir grein fyrir því við þá tvo ráðherra að hann hafi svarað þessari spurningu þannig að ráðuneyti hans hafi ekki lengur með þetta að gera. Það væri ekki verra ef tekið yrði aðeins til í skúffunum og málið fært ofar. Ég held að það sé til mikilla hagsbóta fyrir ríkissjóð að Eyjafjarðarsveit taki við jörðinni eins og menn hafa talað um að heimild sé fyrir í fjárlögum, vegna þess að að mínu mati er þessu miklu betur fyrir komið heima í héraði en í ráðuneytum suður í Reykjavík.

Ég þakka hæstv. ráðherra samt fyrir greinargott svar þó að það hafi ekki verið mjög skýrt.