143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Bæjarstjóri Vestmannaeyja, Elliði Vignisson, leyfði sér að tala um forgangsröðun ríkisins þegar kæmi að útdeilingu fjármuna skattgreiðenda. Hann nefndi þar Sinfóníuhljómsveit Íslands, Þjóðleikhúsið, landbúnað o.fl. Þetta mun hafa vakið mikla athygli og eru menn vægast sagt misánægðir með athugasemdir bæjarstjórans. Þó finnst mér mun fleiri vera sammála honum.

Íbúar Vestmannaeyja sem njóta t.d. ekki sólarhringslöggæslu þurfa að greiða um 30 þús. kr. í ferðakostnað ætli þeir að nýta skattfé sitt með því að fara á niðurgreidda leiksýningu, á konsert hjá Sinfóníuhljómsveitinni, já, eða til að fæða barn, þ.e. ef samgönguleiðir eru færar. En þeir borga sömu skattprósentu og við hin sem höfum greiðan aðgang að því sem við þurfum og viljum.

Virðulegi forseti. Hér ekki fyrir löngu ræddum við skýrslu um slæma stöðu kvenna innan lögreglunnar. Í niðurstöðum skýrslunnar kom fram að helsta ástæða þess að konur koma ekki aftur í lögregluna er lág laun. Ef við höldum áfram að skoða forgangsröðun ríkisins er athyglisvert að líta á upplýsingar sem fjármálaráðuneytið, í samstarfi við heildarsamtök starfsmanna ríkisins, birtir á vef sínum um laun starfsmanna ríkisins. Þar kemur fram að í júní 2013 voru meðaldagvinnulaun kvenna í lögreglunni 305.700 kr. á mánuði en meðaldagvinnulaun kvenna í Sinfóníuhljómsveitinni á sama tíma voru 416.960 kr., eða 111 þús. kr. hærri á mánuði. Ég held að það væri heiður að fá að spila í einni flottustu sinfóníuhljómsveit heims og það væri dýrmætt fyrir frekari frama í tónlistinni. Einnig hélt ég að það væri dýrmætt fyrir ríkið að fá öflugar konur til að sinna löggæslustörfum, leggja sig í lífshættu, vinna dag og nótt undir miklu álagi í erfiðum aðstæðum.

Virðulegi forseti. Ég held að við verðum að hlusta á orð bæjarstjórans og skoða alla forgangsröðun ríkisins upp á nýtt ætlum við að bæta samfélag okkar. Menning og listir eru nauðsynleg en við höfum bara ekkert með það að gera meðan við tryggjum ekki öryggi okkar og heilsu.