143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að taka upp umræðuna frá því í gær og fara yfir það sem hæstv. fjármálaráðherra sagði hér, svo að ég hafi eftir honum: „eins og þær mundu enda“ — þ.e. tillögurnar — „… þegar ríkisstjórnin og ráðherranefndin sem um málið fjallaði“ hefðu ákveðið að skila þeim af sér. Í framhaldi af því velti ég svolítið fyrir mér hverra tillögurnar eru, hagræðingarhópsins eða ráðherranna.

Ég vil ítreka aftur þá beiðni mína og okkar í minni hlutanum í fjárlaganefnd um að afhent verði þau gögn sem við óskuðum eftir. Við óskuðum eftir því að vita hverjir væru gestir hópsins, voru það einstaklingar, hagsmunasamtök, voru það félagasamtök? Var öllu skilað munnlega eða voru skilin eftir einhver minnisblöð? Við höfum ekki fengið að vita eða sjá fundargerðir og hvort hópurinn hélt marga fundi.

Svo var líka rætt um, eða á orðum hæstv. ráðherra í gær mátti skilja að einhverjar tillögur hafi ekki komist í gegnum nálaraugað. Æskilegt væri að vita hverjar þær hefðu verið helstar og á hvaða forsendum þeim var þá hafnað. Voru það pólitísk rök eða fjárhagsleg rök?

Mér finnst þetta skipta máli og ég vil ítreka að það á ekki bara við í þessu máli, hæstv. forseti, þar sem við erum að biðja um að þingræði sé virt og að þingmenn geti leitað eftir stuðningi forseta við að fá fram gögn á tilskildum tíma. Við viljum vita og fá afrit af gögnum og tillögum sem hópnum bárust utan frá, til hverra hann leitaði eftir tillögum, hugmyndum og ráðleggingum, því að fram hefur komið að á netið hafi komið ýmsar tillögur. En það hefur ekki komið fram (Forseti hringir.) nein sundurliðun að öðru leyti. Hver eru faglegu rökin á bak við þessar tillögur?