143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti tekur undir að það er ekki vansalaust að ekki skuli hafa tekist að bregðast við þeirri fyrirætlan sem ég held að allir þingmenn sameinist um, að gera aðgengi fatlaðra að þingsalnum þannig að viðunandi sé og allir sitji við sama borð að því leytinu. Það er einlægur ásetningur forseta og forsætisnefndar og ég veit þingheims alls að við ráðum bót á því. Það standa fyrir dyrum breytingar sem fela í sér að hér verður settur upp nýr ræðustóll í stað þess sem er fyrir og með því treysti ég að þessi mál komist í gott og fullkomlega viðunandi horf.

Forseta er kunnugt um að reynt hefur verið að hafa sem best samband við samtök eins og Öryrkjabandalagið varðandi þetta mál þannig að fullnægjandi verði þegar hið nýja fyrirkomulag lítur dagsins ljós. Því miður var það þannig að fyrstu hugmyndir sem lágu hér fyrir voru að mati okkar í forsætisnefnd, a.m.k. þeirra sem áttu tækifæri til að skoða hugmyndina, alls ekki nægilega góðar. Aðgengi var að vísu tryggt en að öðru leyti var útfærslan ekki eins og við töldum viðunandi og meðal annars þess vegna hefur dregist að ljúka verkinu. Forseti mun að sjálfsögðu fylgja málinu fast eftir og veit að um það er fullkominn einhugur í forsætisnefnd Alþingis og meðal þingmanna allra.