143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Nú rétt fyrir helgina birtist áskorun frá seðlabankastjóra þar sem hann hafði áhyggjur af því að allar launahækkanir umfram 2,5% í næstu kjarasamningum kæmu til með að spenna upp verðbólgu í landinu. Ég deili vissulega áhyggjum seðlabankastjóra af viðkvæmu efnahagsástandi en það er hins vegar þannig að frá þeim sama seðlabankastjóra heyrðist ekkert í sumar þegar þáverandi og núverandi kjararáð, sem var skipað af síðustu ríkisstjórn og hefur starfstíma fram á vor, skammtaði honum sem svarar meðallaunum dagvinnumanns á mánuði hverjum í launahækkun, ekki bara til frambúðar heldur svona 12–15 mánuði aftur í tímann. Seðlabankastjóri, sem var reyndar í hópi þeirra 20 forstjóra ríkisins sem fengu þessa hækkun, talaði ekki um áhrif þessa á launaþróun í landinu, hann hafði ekki sérstakar áhyggjur af þessu.

Ég hafði áhyggjur þá yfir því að þessi kjararáðsákvörðun væri vafasöm og ég verð eiginlega að segja að eftir þessa herhvöt seðlabankastjórans ýfðist sú hugsun upp aftur. Ég held að hugsanlegt sé að við þurfum aðeins að gaumgæfa það hvort ástæða sé til að endurskoða ákvörðun kjararáðs frá því í sumar, að hún verði tekin upp, ekki síst ef höfð er í huga möguleg áhrif hennar á verðlags- og launaþróun í landinu til frambúðar.