143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

staða flóttamanna og meðferð þeirra.

[14:05]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka fyrir að hafa tækifæri til að ræða þessi mál því að ég lít svo á að það sem hefur komið fram undanfarið ár, eða nokkur árin, varðandi málefni hælisleitenda og flóttamanna sé grafalvarlegt.

Í lok september þessa árs fór sérsveit lögreglunnar í viðamikla aðgerð í Auðbrekku í Kópavogi þar sem Reykjanesbær hafði leigt húsnæði fyrir hælisleitendur. Tugir lögreglumanna tóku þátt í aðgerðinni og einnig var notast við fíkniefnahunda. Hurðir voru brotnar upp, menn handteknir á nærfötunum og færðir þannig í einangrun. Mennirnir fengu ekki að klæða sig né heldur taka með sér föt til skiptanna áður en lögregla færði þá í varðhald á lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Sumir þeirra voru því á nærbuxunum einum fata þegar þeim var sleppt úr varðhaldi sex klukkutímum síðar. Þetta hafa lögmenn talið skýrt brot á meðalhófsreglu.

Sálfræðingur hjá Sálfræðiráðgjöfinni sem um árabil stundaði sálfræðilega meðferð á flóttafólki í Danmörku lýsti því sálræna áfalli sem einn skjólstæðingur hans varð fyrir þegar sérsveitin braut sér leið inn í herbergi hans og hefur staðfest að skjólstæðingur hans og fleiri sem voru staddir í Auðbrekku þegar aðgerð lögreglunnar átti sér stað hafi þurft að fá áfallahjálp eftir atburðinn.

Forseti. Í DV er haft orðrétt eftir sálfræðingi þessum, með leyfi forseta:

„Þurftu þeir að bregðast við á þennan máta? Var nauðsynlegt að láta menn, eins og skjólstæðing minn, liggja á nærbuxunum með andlitið í gólfinu í tvo klukkutíma? Þurfti hann að dúsa í fangaklefa í fimm klukkutíma án þess að fá að vita út á hvað þetta gekk? Hvers konar mannúðarskortur liggur að baki því að meðhöndla andlega veika einstaklinga eins og glæpamenn áður en nægjanleg gögn liggja fyrir um einstaka íbúa?“

Talskona Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna, Pia Prytz Phiri, lítur þetta mál mjög alvarlegum augum. Hún segir að engar skýringar hafi verið gefnar á þeirri hörku sem sérsveitin beitti í aðgerðinni en látið í það skína að um væri að ræða ótínda glæpamenn. Jafnframt gagnrýndi hún það hvernig flóttamenn hafi verið brennimerktir sem glæpamenn hérlendis upp á síðkastið. Hún ræddi meðal annars við flóttamennina sem voru handteknir í aðgerðinni, sem og lögfræðinga sem þekkja til málsins, og segir allt útlit fyrir að brotið hafi verið á mannréttindum mannanna. Margir þeirra hafi orðið fyrir miklu sálrænu áfalli þegar sérsveitin réðst inn á heimili þeirra og í kjölfarið misst allt traust á íslenskum stofnunum. Að hennar mati þvingar maður engan út á götu hálfnakinn og á nærbuxunum, sama hver hann er.

Þá hefur það verið þannig að fjölmiðlum hefur gengið mjög erfiðlega að fá upplýsingar um þessa aðgerð og ástæður fyrir henni aðrar en þær sem dómsúrskurðir hafa legið fyrir um. Lögmenn flóttamanna í þessu tilfelli segjast ítrekað hafa reynt að fá frekari upplýsingar um málið en engin gögn fengið nú þegar rúmar fimm vikur eru liðnar frá handtöku. Þá segja lögmennirnir að skjólstæðingar þeirra hafi engar útskýringar fengið á handtökunni og þeim ítrekað neitað um þann rétt sinn að fá að hafa samband við lögfræðing á meðan þeir voru í haldi. Finnst hæstv. innanríkisráðherra þetta ásættanleg vinnubrögð? Mun ráðuneyti hennar beita sér fyrir því að tryggja að mannréttindabrot af þessu tagi muni ekki eiga sér stað aftur?

Ljóst er að þeir sem þekkja til málsins telja nær ómögulegt að íbúar hússins hafi allir gerst sekir um glæpsamlegt athæfi enda er bakgrunnur þeirra afar ólíkur.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem svona aðgerð á sér stað. Áður en ég varð þingmaður vann ég mikið með hælisleitendum og flóttafólki og fór iðulega á gistiheimilið Fit. Ég gleymi aldrei deginum þegar ég fór þangað eftir einmitt svona aðgerð hve fólkið var rosalega hrætt. Ég hitti þar ungan dreng sem var nýkominn til Íslands. Hann hafði orðið vitni að því að faðir hans var skotinn fyrir framan hann í Írak, kemur til Íslands en lendir í svona aðgerð daginn eftir að hann kemur hingað sem hælisleitandi.

Mér finnst svo mikilvægt að það sé tryggt að við förum að þeim flóttamannasamningum sem við erum aðilar að. Það kom mjög skýrt fram í máli Piu Prytz Phiri að það er ekki bara þetta mál hér sem er skýrt brot á þeim flóttamannasamningum sem við erum aðilar að heldur líka önnur mál og mun ég víkja að því í seinni hluta, sem sagt fangelsun vegna falsaðra skilríkja og hyggst spyrja ráðherra út í það.